KR er Íslandsmeistari í körfubolta karla fimmta árið í röð. KR tryggði sér titilinn með 89-73 sigri á Tindastóli í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvíginu í kvöld.

Þetta er 17. Íslandsmeistaratitilinn í sögu KR og sá áttundi sem liðið vinnur á síðustu 12 árum. Tindastóll bíður hins vegar enn eftir sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli.

Kristófer Acox átti frábæran leik fyrir KR; skoraði 23 stig og tók 15 fráköst. Brynjar Þór Björnsson skoraði 16 stig og Jón Arnór Stefánsson 14.

Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 27 stig fyrir Tindastól. Antonio Hester var með 15 stig og 10 fráköst og Pétur Rúnar Birgisson 14 stig, 10 fráköst og níu stoðsendingar.

Góð byrjun gestanna

Tindastóll byrjaði betur og skoraði fyrstu sjö stig leiksins. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, tók í kjölfarið leikhlé. Og það svínvirkaði.

KR-ingar skoruðu 10 stig í röð og unnu kaflann frá leikhléinu og fram að leikhlutaskiptunum 24-5. 

KR var áfram með yfirhöndina framan af 2. leikhluta og komust mest 18 stigum yfir, 39-21. Þá spýtti Tindastóll í lófana og náði að minnka muninn í 11 stig fyrir hálfleik, 44-33. Gestirnir máttu ágætlega við una í ljósi þess að skotnýting þeirra inni í teig var 15% og vítanýtingin 30%.

Stólarnir komu sterkir til leiks í seinni hálfleik, skoruðu fyrstu átta stigin í honum og minnkuðu muninn í þrjú stig, 44-41.

Vantaði framlag frá Hester

KR-ingar voru fljótir að stöðva áhlaup Stólanna og náðu aftur góðum tökum á leiknum. Gestirnir reyndu og reyndu en vantaði stig inni í teig. Antonio Hester átti afleitan leik og munaði um minna fyrir Tindastól.

KR leiddi með 18 stigum fyrir 4. leikhluta, 67-49, og lét þá forystu ekki af hendi. Tindastóll átti ágætis kafla um miðjan 4. leikhluta og náði að minka muninn niður í 11 stig, 77-66.

Nær komust Stólarnir ekki og eins og alltaf í leiknum áttu KR-ingar svör.

Á endanum munaði 16 stigum á liðunum, 89-73.