KR gerði góða ferð i Stykkishólm en liðið lagði Snæfell að velli 81-57 í fyrsta leik sjöttu umferðar í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld.

Sanja Orazovic skoraði mest fyrir KR eða 24 stig talsins en Danielle Victoria Rodriguez kom næst með 15 stig. Sanja tók auk þess átta fráköst og Danielle gaf sex stoðsendingar.

Sóllilja Bjarnadóttir sem var að leika sinn fyrsta leik eftir að hafa meiðst í leik gegn Val á dögunum bætti 11 stigum við í sarpinn fyrir Vesturbæjarliðið.

Gunnhildur Gunnarsdóttir var stigahæst hjá Snæfelli með 16 stig og Emese Vida kom þar á eftir með 14 stig.

KR komst upp að hlið Vals með þessum sigri en liðin hafa hvort um sig 10 stig á toppi deildarinnar. Haukar sem mæta Val annað kvöld hafa átta stig.

Skallagrímur sem er með sex stig leikur við stigalaust lið Breiðabliks. Keflavík sem hefur fjögur stig líkt og Snæfell spilar við Grindavík sem er án stiga á botninum.