Sóllilja Bjarnadóttir samdi í kvöld við kvennalið KR í körfubolta og mun hún leika með liðinu á næsta keppnistímabili.

Samningur Sóllilju við Vesturbæjarliðið er til eins árs en þetta er annar leikmaðurinn sem KR-ingar fá til liðs við sig eftir að síðustu leiktíð lauk.

Áður klófesti KR-liðið landsliðskonuna Hildi Björg Kjartansdóttur. Sóllilja kemur frá Breiðablik þar sem hún skoraði 9,3 stig að meðaltali á síðasta tímabili.

KR hafnaði í öðru sæti deildarkeppninnar síðastliðið vor og laut svo í lægra haldi fyrir Val í undanúrslitum úrslitakeppninnar.