Katrín Ásbjörnsdóttir varð í gærkvöldi fjórði leikmaðurinn sem gengur til liðs við kvennalið KR í knattspyrnu frá því að síðustu leiktíð lauk.

Áður höfðu Lára Kristín Pedersen, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir og Ana Victoria Cate gengið til liðs við félagið.

Katrín sem er uppalinn hjá Vesturbæjarliðinu lék síðast með KR árið 2011 en síðan þá hefur hún leikið við góðan orðstír hjá Þór/KA og Stjörnunni þar sem hún varð Íslandsmeistari með báðum liðunum.

Þá hefur hún einnig leikið með norska liðinu Klepp á ferli sínum sem og 19 leiki fyrir íslenska A-landsliðið. Katrín hefur leikið 166 leiki í efstu deild hér heima og skorað í þeim leikjum 70 mörk.