Hildur Björg Kjartansdóttir, landsliðskona í körfubolta, sem leikið hefur með spænska liðinu Celta de Vigo Baloncesto undanfarin misseri hefur ákveðið að koma heim og leika með KR. Samningur Hildar við KR er til eins árs.

Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi sem haldinn var í KR-heimilinu síðdegis í gær en þar sagði Böðvar Guðjónsson formaður körfuboltadeildar KR að stefnan væri að gera enn betur næsta vetur en á nýliðinni leiktíð. KR, sem var nýliði í Domino's-deildinni á síðasta tímabili, hafnaði í fjórða sæti deildarinnar og féll svo úr leik fyrir Val í undanúrslitum.

Hildur Björg lék með Snæfelli hér heima áður en hún fór út í háskóla í Edinburg í Texas í Bandaríkjunum sumarið 2014. Áður en hún fór til Celta lék hún með spænska liðinu Leganés. Hún hefur því leikið erlendis í fimm ár. Hildur segir að tími hafi verið kominn til þess að koma heim, vera nær fjölskyldunni og taka þátt í þeirri sterku deild sem Domino's-deildin er orðin.

Spennt fyrir komandi tímum í Vesturbænum

„Eftir keppnistímabilið fór hugurinn að leita heim og mig langaði að eiga möguleika á að vera nær fjölskyldu og vinum eftir að hafa í töluverðan tíma erlendis. Deildin er líka orðin mjög sterk og spennandi með tilkomu fleiri sterkra leikmanna bæði íslenskra og fleiri góðra evrópskra leikmanna,“ segir Hildur Björg um vistaskiptin.

„Ég hef fylgst vel með deildinni á meðan ég var úti og hún verður sterkari með hverju árinu. KR stóð sig mjög vel á síðasta tímabili og ég er mjög spennt að verða hluti af því ferli að liðið færist skrefi nær því að berjast um þá titla sem í boði eru. Hér í Vesturbænum eru margir góðir leikmenn bæði ungir og efnilegir og reynslumiklir. Stefnan er einföld, mig langar að vinna þá titla sem í boði eru,“ segir hún enn fremur um ástæðu þessu að hún valdi að gera samning við KR.

„Ég hef ekki spilað með eða á móti mörgum leikmönnum í núverandi liði KR en ég er mjög spennt fyrir því að kynnast leikmönnum liðsins og starfinu í Vesturbænum. Þrátt fyrir að KR hafi verið nýliði í deildinni síðasta vetur og liðið hafi komið einhverjum á óvart með góðum árangri sínum þá er það ekkert nýtt að KR sé með lið í fremstu röð. Það er mikil hefð hér og ég finn strax fyrir þeim metnaði sem ríkir fyrir framtíðinni. Það var það sem heillaði mig og varð til þess að ég valdi Vesturbæinn umfram önnur tilboð sem ég fékk,“ segir Hildur