Kvennalið KR er fallið úr Bestu deild kvenna eftir erfitt sumar. Gustað hefur um liðið undanfarna daga þar sem þjálfarar og leikmenn liðsins hafa sakað félagið um að huga illa að kvennaboltanum. Í tapi gegn Selfossi um helgina vantaði sjálfboðaliða á sjúkrabörurnar, þá virðast fleiri vandamál vera til staðar.
„Ræddu þau við Pál Kristjánsson (formann knattspyrnudeildar) sem ber ábyrgð á því sem þar gerist, ég hef skoðun á málinu en ég tel rétt að þú ræðir frekar við Pál,“ segir Lúðvík í samtali við Fréttablaðið.
Páll ræddi málið við fjölmiðla í fyrradag og játaði því að einhver vandamál væru til staðar en taldi pirringinn í tengslum við kvennaliðið snúast í kringum það að liðið væri fallið úr efstu deild. „Það er búið að leggja mikið í þetta lið en árangurinn er bara ekki nægilega góður. Það endurspeglast að einhverju leyti í pirrings-viðtali vegna árangursins,“ sagði Páll.
Svo er verið að bera okkur saman við Val,
af hverju gerum við ekki eins og Valur?
Fjárhagsstaða KR er slæm
Lúðvík segir stöðuna í stærri deildum KR slæma og það taki tíma að taka til í fjármálum félagsins. „Síðustu tvö eða þrjú ár hafa verið mjög erfið fyrir félagið eftir að kórónaveiran kom skjalanna. Ýmsar ákvarðanir hafa verið teknar og þær litast af fjárhagsstöðu félagsins eftir tilkomu kórónaveirufaraldursins. Við erum að reyna að vinna okkur upp úr því en það er mjög erfið hola sem félagið hefur lent í, í tengslum við það."
„Það er þvert á allar deildir, deildirnar eru reknar sjálfstætt og faraldurinn kom misilla við þær. Í minni deildunum hefur þetta ekki verið stórt vandamál. Varðandi stóru afreksdeildirnar okkar, fótbolta og körfubolta, hefur þetta verið mjög erfitt. Það er staðreynd, við erum að reyna að vinna okkur út úr þessu en við erum ekki búin að sjá til lands enn þá.“
Knattspyrnudeildin leysi málið
Lúðvík segir ekki hægt að kenna slæmri fjárhagsstöðu um þau vandamál sem virðast í kringum kvennalið félagsins í knattspyrnu. „Það er auðvitað ekki beint fjármálahlið, þar eru ákveðnir menn ábyrgir fyrir ákveðnum verkum og ef þeir standa sig ekki þá þarf deildin að taka á því. Eins og að manna sjúkrabörur, það var mjög óheppilegt. Sá sem var ábyrgur fyrir því hafði bara ekki staðið sig í stykkinu fyrir þennan umrædda leik.
Ég er ekki með puttana á verkaskiptingu innan hverrar deildar, það er óvinnandi. Staðan hefur verið mjög erfið í félaginu, bæði hjá körfunni og knattspyrnunni. Við erum að reyna að vinna okkur út úr því,“ segir Lúðvík um atvikið um liðna helgi.
Aðstaða KR til skammar
KR-ingar hafa í mörg ár kallað eftir betri aðstöðu og vonir standa til að framkvæmdir fari af stað innan tíðar. „Það má ekki gleyma því að aðstaða KR í dag er til háborinnar skammar. Við vorum í þrjá mánuði í vetur með einn sparkvöll til afnota fyrir knattspyrnudeildina, það var verið að skipta um gervigrasið okkar.
Félagið hafði engan völl til að æfa á, að fá bætta aðstöðu er lykilatriði fyrir félagið. Við horfum á þetta sem fjöregg félagsins í dag,“ segir Lúðvík en vonast er eftir að skóflustunga að nýju fjölnota íþróttahúsi félagsins verði tekin fyrir áramót og að bygging þess taki um 18 mánuði.
Frekari framkvæmdir fyrir aðrar deildir félagsins eru svo fyrirhugaðar í Frostaskjóli. Lúðvík segir annað vandamál vera að það er erfiðara en áður að fá sjálfboðaliða til starfa.
„Það er orðið það, það er staðreynd. KR er mjög stórt félag og hefur getað treyst á sjálfboðaliða til þessa og ég hef ekki trú á öðru en að það verði þannig áfram. Þó að þetta hafi farið svona á þessum kvennaleik, að þar hafi brugðist sú þjónusta sem stelpurnar áttu að fá.“
Erum ekki fasteignafélag
Lúðvík segir að KR muni koma sterkara til leiks þegar félagið hefur unnið úr fjárhagsvandræðum sínum. Hann segir þó mikilvægt að karlalið geri vel í Evrópukeppni, þar sé mikla fjármuni að fá. KR féll úr leik í fyrstu umferð í Evrópukeppni í sumar gegn pólskum andstæðingum og á litla sem enga von á Evrópusæti á næstu leiktíð.
„Við mætum sterkir til leiks þegar við erum búnir að vinna okkur út úr þessu. Ef við horfum aðeins á knattspyrnudeildina, þá var vonast til að fá meira út úr Evrópukeppni í ár en eina umferð. Við vorum mjög óheppnir með drátt, lentum á eina félaginu sem við áttum ekki möguleika í af sex sem voru í þeim potti.
Að komast í Evrópukeppni á næstu leiktíð er draumur einn, það er fræðilegur möguleiki en ekki meira en það. Við þurfum að vinna alla okkar leiki og hinir að tapa nánast öllum leikjum, heimurinn er ekki svartur og hvítur þó svo að það væri okkar draumur. Fyrir afreksdeildir í knattspyrnu þá skiptir Evrópukeppni mjög miklu máli,“ segir Lúðvík sem segir ótækt að bera KR saman við félag eins og Val í dag.
„Svo er verið að bera okkur saman við Val, af hverju gerum við ekki eins og Valur? Við erum ekki fasteignafélag eins og Valur sem er með fjármuni sem ekkert annað félag þekkir til að reka sínar deildir.“
Sorgarsaga kvennaliðsins
Lúðvík segir síðustu ár hjá kvennaliðinu eina sorgarsögu en liðið hefur flakkað á milli deilda. „Þetta hefur verið sorgarsaga frá því að Covid kom, þegar liðið fór niður árið 2020 þá voru þær í Covid-einangrun trekk í trekk. Fóru verr úr því en nokkurt annað félag, þær hefðu ekki farið niður undir eðlilegum kringumstæðum. Þær fóru þrisvar í einangrun.
Svo er það sumarið í ár, við erum með sumar í þrjá mánuði og í tvo mánuði af þeim spila þær ekki. Það eru önnur verkefni sem fá forgang, þá er erfitt að ná takti til að ná árangri. Liðið var ekki sterkt fyrir en við töldum okkur vera með nógu sterkt lið til að vera áfram í efstu deild, þetta gerði útslagið að vera ekki í keppnisformi,“ segir Lúðvík að lokum.