Kvenna­lið KR er fallið úr Bestu deild kvenna eftir erfitt sumar. Gustað hefur um liðið undan­farna daga þar sem þjálfarar og leik­menn liðsins hafa sakað fé­lagið um að huga illa að kvenna­boltanum. Í tapi gegn Sel­fossi um helgina vantaði sjálf­boða­liða á sjúkra­börurnar, þá virðast fleiri vanda­mál vera til staðar.

„Ræddu þau við Pál Kristjáns­son (for­mann knatt­spyrnu­deildar) sem ber á­byrgð á því sem þar gerist, ég hef skoðun á málinu en ég tel rétt að þú ræðir frekar við Pál,“ segir Lúð­vík í sam­tali við Frétta­blaðið.

Páll ræddi málið við fjöl­miðla í fyrra­dag og játaði því að ein­hver vanda­mál væru til staðar en taldi pirringinn í tengslum við kvenna­liðið snúast í kringum það að liðið væri fallið úr efstu deild. „Það er búið að leggja mikið í þetta lið en árangurinn er bara ekki nægi­lega góður. Það endur­speglast að ein­hverju leyti í pirrings-við­tali vegna árangursins,“ sagði Páll.

Svo er verið að bera okkur saman við Val,
af hverju gerum við ekki eins og Valur?

Fjárhagsstaða KR er slæm

Lúð­vík segir stöðuna í stærri deildum KR slæma og það taki tíma að taka til í fjár­málum fé­lagsins. „Síðustu tvö eða þrjú ár hafa verið mjög erfið fyrir fé­lagið eftir að kóróna­veiran kom skjalanna. Ýmsar á­kvarðanir hafa verið teknar og þær litast af fjár­hags­stöðu fé­lagsins eftir til­komu kóróna­veirufar­aldursins. Við erum að reyna að vinna okkur upp úr því en það er mjög erfið hola sem fé­lagið hefur lent í, í tengslum við það."

„Það er þvert á allar deildir, deildirnar eru reknar sjálf­stætt og far­aldurinn kom misilla við þær. Í minni deildunum hefur þetta ekki verið stórt vanda­mál. Varðandi stóru af­reks­deildirnar okkar, fót­bolta og körfu­bolta, hefur þetta verið mjög erfitt. Það er stað­reynd, við erum að reyna að vinna okkur út úr þessu en við erum ekki búin að sjá til lands enn þá.“

Knattspyrnudeildin leysi málið

Lúð­vík segir ekki hægt að kenna slæmri fjár­hags­stöðu um þau vanda­mál sem virðast í kringum kvenna­lið fé­lagsins í knatt­spyrnu. „Það er auð­vitað ekki beint fjár­mála­hlið, þar eru á­kveðnir menn á­byrgir fyrir á­kveðnum verkum og ef þeir standa sig ekki þá þarf deildin að taka á því. Eins og að manna sjúkra­börur, það var mjög ó­heppi­legt. Sá sem var á­byrgur fyrir því hafði bara ekki staðið sig í stykkinu fyrir þennan um­rædda leik.

Ég er ekki með puttana á verka­skiptingu innan hverrar deildar, það er ó­vinnandi. Staðan hefur verið mjög erfið í fé­laginu, bæði hjá körfunni og knatt­spyrnunni. Við erum að reyna að vinna okkur út úr því,“ segir Lúðvík um at­vikið um liðna helgi.

Aðstaða KR til skammar

KR-ingar hafa í mörg ár kallað eftir betri að­stöðu og vonir standa til að fram­kvæmdir fari af stað innan tíðar. „Það má ekki gleyma því að að­staða KR í dag er til há­borinnar skammar. Við vorum í þrjá mánuði í vetur með einn spar­kvöll til af­nota fyrir knatt­spyrnu­deildina, það var verið að skipta um gervi­grasið okkar.

Fé­lagið hafði engan völl til að æfa á, að fá bætta að­stöðu er lykil­­at­riði fyrir fé­lagið. Við horfum á þetta sem fjör­egg fé­lagsins í dag,“ segir Lúð­vík en vonast er eftir að skóflu­stunga að nýju fjöl­nota í­þrótta­húsi fé­lagsins verði tekin fyrir ára­mót og að bygging þess taki um 18 mánuði.

Frekari fram­kvæmdir fyrir aðrar deildir fé­lagsins eru svo fyrir­hugaðar í Frosta­skjóli. Lúð­vík segir annað vanda­mál vera að það er erfiðara en áður að fá sjálf­boða­liða til starfa.

„Það er orðið það, það er stað­reynd. KR er mjög stórt fé­lag og hefur getað treyst á sjálf­boða­liða til þessa og ég hef ekki trú á öðru en að það verði þannig á­fram. Þó að þetta hafi farið svona á þessum kvenna­leik, að þar hafi brugðist sú þjónusta sem stelpurnar áttu að fá.“

Erum ekki fasteignafélag

Lúð­vík segir að KR muni koma sterkara til leiks þegar fé­lagið hefur unnið úr fjár­hags­vand­ræðum sínum. Hann segir þó mikil­vægt að karla­lið geri vel í Evrópu­keppni, þar sé mikla fjár­muni að fá. KR féll úr leik í fyrstu um­ferð í Evrópu­keppni í sumar gegn pólskum and­stæðingum og á litla sem enga von á Evrópu­sæti á næstu leik­tíð.

„Við mætum sterkir til leiks þegar við erum búnir að vinna okkur út úr þessu. Ef við horfum að­eins á knatt­spyrnu­deildina, þá var vonast til að fá meira út úr Evrópu­keppni í ár en eina um­ferð. Við vorum mjög ó­heppnir með drátt, lentum á eina fé­laginu sem við áttum ekki mögu­leika í af sex sem voru í þeim potti.

Að komast í Evrópu­keppni á næstu leik­tíð er draumur einn, það er fræði­legur mögu­leiki en ekki meira en það. Við þurfum að vinna alla okkar leiki og hinir að tapa nánast öllum leikjum, heimurinn er ekki svartur og hvítur þó svo að það væri okkar draumur. Fyrir af­reks­deildir í knatt­spyrnu þá skiptir Evrópu­keppni mjög miklu máli,“ segir Lúð­vík sem segir ó­tækt að bera KR saman við fé­lag eins og Val í dag.

„Svo er verið að bera okkur saman við Val, af hverju gerum við ekki eins og Valur? Við erum ekki fast­eigna­fé­lag eins og Valur sem er með fjár­muni sem ekkert annað fé­lag þekkir til að reka sínar deildir.“

Sorgarsaga kvennaliðsins

Lúð­vík segir síðustu ár hjá kvenna­liðinu eina sorgar­sögu en liðið hefur flakkað á milli deilda. „Þetta hefur verið sorgar­saga frá því að Co­vid kom, þegar liðið fór niður árið 2020 þá voru þær í Co­vid-ein­angrun trekk í trekk. Fóru verr úr því en nokkurt annað fé­lag, þær hefðu ekki farið niður undir eðli­legum kring­um­stæðum. Þær fóru þrisvar í ein­angrun.

Svo er það sumarið í ár, við erum með sumar í þrjá mánuði og í tvo mánuði af þeim spila þær ekki. Það eru önnur verk­efni sem fá for­gang, þá er erfitt að ná takti til að ná árangri. Liðið var ekki sterkt fyrir en við töldum okkur vera með nógu sterkt lið til að vera á­fram í efstu deild, þetta gerði út­slagið að vera ekki í keppnis­formi,“ segir Lúð­vík að lokum.