KR getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu karla í 27. skipti í sögu félagsins með hagstæðum úrslitum í leikjum kvöldsins í 20. umferð Pepsi Max-deildarinnar. KR-ingar sækja Valsmenn á Origo-völlinn en með sigri í þeim er titilinn í höfn hjá Vesturbæjarliðinu en síðast þegar KR varð Íslandsmeistari tryggði liðið sér titilinn með 2-1 sigri á Valsvellinum.

Þá voru það tvö mörk frá enska framherjanum Gary John Martin sem tryggðu KR sigurinn en Rúnar Kristinsson var við stjórnvölinn hjá KR-liðinu það árið og Bjarni Eggert Guðjónsson núverandi aðstoðarmaður hans var fyrirliði liðsins.

Hannes Þór Halldórsson sem nú ver mark Vals var á milli stanganna hjá KR í leiknum árið 2013 og Óskar Örn Hauksson sem ber fyrirliðabandið hjá KR þetta sumarið og Atli Sigurjónsson voru í byrjunarliði KR í leiknum.

Gunnar Þór Gunnarsson og Aron Bjarki Jósepsson voru svo í leikmannahópi KR líkt og þeir munu að öllum líkindum vera í leiknum í kvöld.

Breiðablik sem er í öðru sæti deildarinnar sjö stigum á eftir KR þegar þrjár umferðir eru eftir fær Stjörnuna í heimsókn. Stjarnan er í harðri baráttu um Evrópusæti en liðið hefur 28 stig og er þremur stigum á eftir FH sem er í þriðja sæti. Liðin sem hafna í öðru og þriðja sæti munu ásamt Víkingi sem varð bikarmeistari um helgina leika í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

Grindavík rær svo lífróður þegar liðið heldur á Akranes í kvöld og leikur við ÍA sem á enn möguleika á Evrópusæti. Grindvíkingar eru sjö stigum frá öruggu sæti og tap þýðir þar af leiðandi að liðið fellur um deild. ÍA er hins vegar í áttunda sæti deildarinnar með 25 stig og þarf á sigri að halda til þess að halda í Evrópudraum sinn.