KR lagði Þór/KA að velli með tveimur mörkum gegn engu þegar liðin mættust í seinni undanúrslitaleiknum í Mjólkurbikar kvenna í knattspyrnu á Meistaravöllum í dag.

Það var Ásdís Karen Halldórsdóttir sem kom KR yfir með marki sínu eftir tæplega klukkutíma leik.

Ásdís Karen fékk þá góða sendingu frá Gloriu Douglas og kláraði færið með laglegu skoti.

Betsy Hassett tvöfaldaði forystu KR liðsins þegar hún skoraði með hnitmiðuðu skoti sem fór í fallegum boga yfir Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur markvörð Þórs/KA og þar við sat.

KR-ingar eru að fara í bikarúrslit í fyrsta skipti síðan árið 2011 en þar mæta Vesturbæingar Selfossi sem vann Fylki í gær.

KR hefur fjórum sinnum orðið bikarmeistari í knattspyrnu kvenna síðast árið 2008.