Íslandsmeistarar síðustu fimm ára, KR, eru búnir að finna staðgengil Dino Stipcic en samkvæmt heimildum Rúv er Mike DiNunno búinn að skrifa undir í Vesturbænum.

DiNunno er bandarískur en er með ítalskt vegabréf og telst því sem evrópskur leikmaður og getur því leikið við hlið Julian Boyd.

Á atvinnumannaferlinum hefur DiNunno leikið með Beroe í Búlgaríu, Chesire Phoenix í Bretlandi, Iraklis Thessaloniki í Grikklandi og  Nord Barese á Ítalíu.

Í bandaríska háskólakörfuboltanum lék hann með liðum Northern Illinois og Eastern Kentucky.

KR vann fyrsta leik sinn eftir jólafríið í gær þegar KR-ingar gerðu sér góða ferð og unnu Skallagrím í Borgarnesi.