KSÍ tilkynnti í dag í dag að síðustu tveir heimaleikir Fjölnis í Pepsi Max-deild karla færu fram í Egilshöll, þar á meðal gegn KR sem íhugaði fyrr í sumar að kæra rekstraraðila Egilshallar.

Leikirnir fara fram 15. október og 24. október og er óvíst í hvaða ástandi Extra-völlurinn, heimavöllur Fjölnis, verður á þeim tíma.

Fyrr á þessu ári staðfesti Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, að félagið væri að kanna hvort að grundvöllur væri fyrir bótarétti frá Regin, fasteignarfélaginu sem sér um gervigrasið í Egilshöll.

Á þessu ári slitu KR-ingarnir Gunnar Þór Gunnarsson og Emil Ásmundsson krossband í leikjum inn í Egilshöll og Hjalti Sigurðsson viðbeinsbrotnaði.

„Við erum að skoða það hvort það sé grundvöllur fyrir bótarétti, og þá að sækja bætur í hendur Regins. Við teljum að við, og okkar leikmenn, höfum orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna vanrækslu fasteignafélagsins,“ segir Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Fréttablaðið á sínum tíma.

„Að okkar mati hefur Reginn vanrækt þá skyldu sína að sjá til þess að viðhald sé með þeim hætti að gervigrasið í Egilshöll uppfylli þau skilyrði að völlurinn sé hættulaus leikmönnum. Af þeim sökum hafi mögulega myndast réttur til skaðabóta. Málið er í vinnslu innan okkar raða,“ segir Páll enn fremur.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, lýsti yfir óánægju sinni með gervigrasið fyrr á þessu ári fyrir úrslitaleik Reykjavíkurmótsins. Í leikjunum reyndi Rúnar að hlífa eldri leikmönnum liðsins við gervigrasinu í Egilshöll.

„Ég er enginn sérfræðingur en það þarf að hirða völlinn og fá stráin til að standa upp í loftið en ekki liggja niðri. En mér finnst þetta ekki gott gras og það býður hættunni heim að spila fótboltaleiki þarna.“