Bayern Munchen staðfesti í dag að félagið hefði komist að samkomulagi við króatíska þjálfarann Niko Kovac um að taka við liðinu af Jupp Heynckes í sumar en hann skrifaði undir þriggja ára samning í Bæjaralandi.

Heynckes tók við liðinu af Carlo Ancelotti fyrr á tímabilinu og hefur stýrt liðinu með frábærum árangri undanfarna mánuði en hann ætlar að hætta störfum á ný að tímabilinu loknu.

Kovac hefur stýrt liði Eintracht Frankfurt undanfarin tvö ár en hannn stýrði áður króatíska landsliðinu. Kom hann liðinu á Heimsmeistaramótið í Brasilíu eftir sigur á Íslandi í umspilinu en hann hætti störfum sem þjálfari Króatíu árið 2015. 

Undir hans stjórn er Frankfurt í baráttu um sæti í Evrópudeildinni á næsta ári eftir að hafa verið í fallbaráttu árið áður.

Lék Kovac í tvö ár með Bayern sem leikmaður en hann lék 51 leiki í öllum keppnum og skoraði fimm mörk er Bayern varð þýskur meistari.