Leikmenn brasilíska liðsins Santos fengu að kenna á reiði stuðningsmanna Boca Juniors eftir leik liðanna í nótt þegar stuðningsmenn Boca fóru að grýta rútu brasilíska liðsins.

Liðin mættust í Argentínu í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Copa Libertadores sem er nokkurs konar Meistaradeild Suður-Ameríku.

Leikmenn greindu frá árásinni á samskiptamiðlum og deildu myndum af grjóthnullungum sem komust inn í rútuna. Einn þeirra, Kaio Jorge, gaf til kynna að múrsteini hefði verið kastað í rútuna.

Leikmennirnir sluppu allir óhultir en Santos fordæmdi aðgerðir stuðningsmanna Boca í nótt. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem stuðningsmenn í Argentínu valda usla með því að grýta rútu andstæðinganna.

Í aðdraganda úrslitaleiksins í sömu keppni árið 2018 voru leikmenn Boca grýttir af stuðningsmönnum erkifjendanna í River Plate.