Tveir leikmenn Tottenham greindust með Covid-19 í dag eftir að hafa æft með liðinu í gær í aðdraganda leiks Tottenham og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Ekki er búið að nafngreina leikmennina en þeir eru nú komnir í tíu daga sóttkví og missa því af næstu þremur leikjum Tottenham, tveimur í deild og einum í Sambandsdeild Evrópu.

Smitið kom fyrst í ljós á fimmtudaginn en þeir verða teknir í sýnatöku á ný á morgun en félagið telur ólíklegt að aðrir leikmenn liðsins hafi smitast.

Þá eru fjórir leikmenn Tottenham væntanlegir til Englands í kvöld eftir að hafa tekið þátt í leikjum með landsliðum sínum í Suður-Ameríku aðfaranótt föstudags.