Dag­ný Lísa Davíðs­dóttir verður á mánu­daginn önnur ís­lenska konan og fjórði Ís­lendingurinn frá upp­hafi eftir því sem Frétta­blaðið kemst næst til að taka þátt í úr­slita­keppni banda­ríska há­skóla­körfu­boltans, mars­fárinu (e. March Madness). Lið Dag­nýjar, Wyoming Cowgirls, tekur í ár þátt í mars­fárinu í annað sinn í sögunni en þess bíður ein­vígi gegn UCLA sem er að taka þátt fimmta árið í röð. Líkurnar eru UCLA hlið­hollar en Dag­ný Lísa og stöllur koma inn í mótið á mikilli siglingu eftir að hafa unnið sex leiki í röð.

Þessi 24 ára gamli Hver­gerðingur hefur verið í námi í Banda­ríkjunum í tæp sjö ár og leikið körfu­bolta sam­hliða náminu.

„Það er því­lík spenna komin í hópinn enda er þetta mjög spennandi tæki­færi. Þegar ég fór fyrst út, fyrir sjö árum síðan, ætlaði ég mér að komast í há­skóla­körfu­boltann og í mars­fárið. Núna tókst okkur að vinna titil og komin í mars­fárið sem er á­kveðinn léttir á loka­árinu,“ segir Dag­ný létt í lund og heldur á­fram:

„Ég hef ekki unnið titil áður og í raun ekki fengið mörg tæki­færi til þess áður. Kannski er það á­kveðin heppni að fá að enda ferilinn minn í Banda­ríkjunum á þennan hátt.“

Helena Sverrisdóttir keppti fyrst Íslendinga í marsfárinu árið 2009 fyrir TSU. Sex árum seinna keppti Frank Aaron Booker fyrstur karlamegin fyrir Oklahoma og Jón Axel Guðmundsson fetaði í hans fótspor með Davidson árið 2018.

Undan­farnar vikur hefur verið leikið þétt og hver leikur skipt máli í bar­áttunni um að komast í mars­fárið. Um leið vann Wyoming sinn fyrsta titil í Mountain West-deildinni.

„Skólinn hefur oft verið ná­lægt því að komast á­fram en bara einu sinni komist í mars­fárið. Líkurnar voru okkur ekkert endi­lega í hag enda þurftum við að spila fjóra leiki á stuttum tíma þegar önnur lið léku þrjá,“ segir Hver­gerðingurinn og viður­kennir að því hafi ekki gefist mikill tími til að fagna sigrunum.

„Í úr­slita­keppninni í deildinni okkar var lítið um fagnaðar­læti eftir sigur­leikina. Við fórum bara beint í að skoða næsta and­stæðing og undir­búa næsta leik. Það var í raun ekki fyrr en eftir úr­slita­leikinn sem við gátum leyft okkur að fagna að­eins. Þá vissum við að við hefðum smá tíma en fagnaðar­lætin voru auð­vitað tak­mörkuð af sótt­varna­reglum. Ég og ein önnur í liðinu fengum kóróna­veiruna fyrr í vetur þannig það eru mjög strangar reglur en samt eru smit að koma upp hjá öðrum liðum,“ segir Dag­ný.

Dagný með vítaskot í leik með Wyoming.
mynd/aðsend

Eftir að hafa leikið fyrir Niagara Uni­versity fyrstu árin í Banda­ríkjunum skipti Dag­ný yfir til Wyoming í fyrra. Meiðsli á öðru ári í Niagara gerðu henni kleift að fá auka ár í banda­ríska há­skóla­körfu­boltanum (e. Reds­hirt) og er hún því að klára aðra meistara­gráðu sína í Wyoming.

„Ég byrjaði í Niagara þar sem ég var í fjögur ár en vegna meiðslanna stóð til boða að leika eitt ár í við­bót. Ég fann að ég var ekki búin að fá nóg út úr þessu og vildi halda á­fram og skellti mér því í annað masters­nám. Þetta er mun stærri skóli og ég er of­boðs­lega á­nægð með að hafa tekið þessa á­kvörðun.“

Þetta er að­eins í annað skiptið sem kvenna­lið Wyoming kemst í mars­fárið og fyrsti meistara­titillinn sem liðið vinnur.

„Það hefur verið frá­bært að taka þátt í því að vinna fyrsta titil kvenna­liðsins og brjóta ísinn þar. Um leið er gott að vita hvað þetta gerir fyrir stuðnings­menn okkar sem eru meðal þeirra bestu á lands­vísu og elska liðið. Skólinn er ekki í stór­borg og það er ekkert at­vinnu­manna­lið hér þannig að þau leggja allt í há­skóla­liðin og styðja vel við bakið á liðinu. Fyrir vikið verður í­þrótta­fólkið hér að hálf­gerðum stjörnum, innan sem utan vallar.“

Baráttan er oft hörð inn í teignum hjá framherjum.
mynd/aðsend

Fyrir fram má búast við sigri UCLA en í mars­fárinu skiptir styrk­leika­röðunin yfir­leitt engu máli. Fyrir vikið er keppnin einn af vin­sælustu í­þrótta­við­burðum hvers árs vestan­hafs þar sem minni spá­menn slá oft í gegn á móti liðum sem eru talin sterkari á blaði.

„Fegurðin er að það getur allt gerst í þessum leikjum. Mars­fárið eins og það leggur sig byrjar í raun í úr­slita­keppni deildanna og endar á því að lið verður meistari á lands­vísu. Í úr­slita­keppninni í okkar deild vorum við í sjöunda sæti á styrk­leika­listanum eftir að hafa misst marga leiki úr höndum okkar á tíma­bilinu en við fórum alla leið. Fyrir vikið vitum við að við getum unnið hvaða lið sem er og kunnum að mörgu leyti vel við okkur sem litla liðið á pappírnum.“

Dag­ný fór út að­eins sau­tján ára gömul og segist koma aftur til Ís­lands sem mun heil­steyptari leik­maður.

„Ég hef tekið gríðar­legum fram­förum á þessum árum sem var ein af á­stæðunum fyrir því að ég fór út á sínum tíma. Sam­keppnin er meiri hér og ég hef unnið með frá­bærum liðs­fé­lögum og þjálfurum, samt erum við ekki meðal tuttugu bestu liða Banda­ríkjanna. Sam­keppnin er slík að það drífur mann á­fram að taka bætingum. Ég kem því heim sem mun heil­steyptari leik­maður,“ segir Dag­ný sem á von á því að leika á Ís­landi á næsta tíma­bili.