Blóðugt ástand í Íran teygði anga sína til Katar á mánudag þar sem Heimsmeistaramótið í knattspyrnu fer fram. Fyrir leik Englands og Írans ákváðu allir landsliðsmenn Írans að syngja ekki með þjóðsöng þjóðarinnar, vakti þetta sterk viðbrögð út um allan heim.

Mótmæli hafa staðið yfir í Íran eftir að Mahsa Amini lést í haldi lögreglunnar í Teheran, höfuðborg Írans. Var Amini handtekin og sögð hafa brotið lög um höfuðslæður þar í landi, leikur grunur á að hún hafi verið lamin til dauða.

Þessu hefur verið mótmælt á götum úti og og er talið að allt að 400 einstaklingar hafi látið lífið í átökum við lögregluna í Íran. Einnig hefur því verið haldið fram að um 17 þúsund einstaklingar hafi verið handteknir vegna mótmæla.

„Konur, líf og frelsi,“ stóð á skilti sem var á vellinum í Katar í gær, fleiri báru slík skilti og studdu við fólkið í heimalandinu. Stjórnvöld í Íran hafa reynt að halda því fram að mótmælin séu í reynd skipulögð af erlendum óvinum. Fram hefur komið að ekki hafi allir stuðningsmenn Írans tekið undir skilaboðin, sumir styðja stjórnvöld. Samkvæmt The Guardian deildu stuðningsmenn í stúkunni þeim skilaboðum sem liðið og fólkið sem hélt á skiltum í stúkunni sendi.

Fyrirliði Írans, Ehsan Hajsafi, hefur látið hafa það eftir sér að ástandið í heimalandinu sé slæmt.

„Fólkið er ekki hamingjusamt,“ segir Hajsafi en liðið hefur fengið mikið hrós frá hinum vestræna heimi fyrir að taka afstöðu gegn ástandinu í heimalandinu og syngja ekki þjóðsönginn. n