Í nóvember 2017 tók stjórn Körfuknattleikssambands Íslands þá ákvörðun að hverfa frá svokallaðri 4+1 reglu, sem varðaði leyfilegan fjölda erlendra leikmanna. Grímur Atlason, stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild Vals, skrifaði lokaverkefni sitt í MBA-námi um afnám reglunnar og hvaða áhrif hún hafði á mínútur íslenskra leikmanna í úrvalsdeildinni og 1. deild karla og kvenna þegar opnað var fyrir ótakmarkað flæði leikmanna frá EES-svæðinu. Tveir meistaraflokkar kvenna hafa verið lagðir niður frá því að 4+1 reglan var afnumin.

Niðurstöður eru ansi sláandi því mínútum íslenskra leikmanna í úrvalsdeildum karla og kvenna og 1. deild karla fækkaði við breytinguna á bilinu 16,3 prósent til 29 prósent. Engar marktækar breytingar urðu á 1. deild kvenna. Erlendum leikmönnum fjölgaði á sama tíma um 42 í þessum deildum.

Einnig benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að fjárhagur körfuknattleiksdeildanna sé ógagnsær og rekstur ósjálfbær sem og að staða kvennaliða virðist brothættari en karlaliða og að jafnréttissjónarmiða sé ekki alltaf gætt.

„Það er margt sláandi við þetta. KKÍ greip ekki til neinna varna á sínum tíma og ákváð að fara ekki í neina millileið eða horfa á hvað aðrir voru að gera. Við fórum úr því að hafa stóra girðingu í að hafa allt galopið og afleiðingarnar eru svona,“ segir Grímur.

Samkvæmt rannsókninni spiluðu íslenskir leikmenn í úrvalsdeild karla að meðaltali 29 prósent færri mínútur í leik en þeir gerðu fyrir breytinguna. Hjá konunum var fækkunin 16,5 prósent. Á fundi forráðamanna félaga í úrvalsdeildum karla og kvenna hjá KKÍ í júníbyrjun 2019 lýsti Grímur yfir áhyggjum af stöðu kvennakörfuboltans á Íslandi. Hann segir að mínúturnar séu eitt en fækkun í æfingahópunum sé annað en þeim fækkaði alls um 86. „Þetta eru sláandi tölur að mörgu leyti og það sem mér finnst verst er að enginn er að pæla í þessu. Það var enginn sem reis upp og sagði okkur að passa okkur, skoða hvað þetta hefur í för með sér og svo framvegis. Út frá því á að taka ákvörðun finnst mér.“

Hann segir að of margir séu að hugsa aðeins um sitt eigið lið, hvað því hentar best á þeim tíma en ekki á morgun eða hinn, hvað þá eftir tvö ár eða fimm ár. „Svona breytingar hafa afleiðingar,“ segir Grímur. „Við erum á tímum núna þar sem félögin standa ekki vel eftir að hafa verið djörf að fá sér leikmenn og ekki bætti úr skák að COVID kom þannig að þetta er slæmt fyrir körfubolta í heild.“

Grímur þekkir vel til í rekstri og segir að gegnsæi sé lítið þrátt fyrir að mikið af opinberu fé komi inn í félög í landinu. „Þetta eru allt áhugamenn sem koma að þessu og þetta á að vera gegnsætt. Það er fullt af opinberu fé að koma inn í félögin og maður þarf að treysta því að barna- og unglingastarf sé ekki að borga fyrir meistaraflokka. Það þarf að vera skilgreint hvert þessir peningar eru að fara. Klósettpappírinn sem börnin eru að selja fara oft í einn pott sem allir geta gengið í. Það er mjög vont.“

Grímur Atlason stjórnarmaður í körfuboltadeild Vals. Fréttablaðið/Ernir