Formúla 1 er karllæg mótaröð, það er staðreynd sem ekki er hægt að líta framhjá. Allir ökumenn mótaraðarinnar eru karlmenn, allir liðsstjórarnir, keppnisstjórnendurnir eru sömuleiðis karlmenn en eftir síðustu keppnishelgi er athyglin svo til öll á Hönnu Schmitz, aðaltæknifræðingi Red Bull Racing.
Mikil ábyrgð er á herðum Hönnu líkt og öðrum aðaltæknifræðingum í Formúlu 1. Hún sér um teymi sem hefur það verkefni að reikna út allar mögulegar aðstæður sem upp geta komið í tengslum við keppnishelgar þar sem ökumenn aka um og yfir 300 kílómetra hraða á klukkustund.
Það að gefa Red Bull Racing sem mesta möguleika á sigri í gegnum keppnisáætlanir er hlutverk Hönnu sem stjórnanda keppnisáætlunarteymisins og það hefur heldur betur skilað sér og vakti athygli um nýliðna keppnishelgi þar sem keppnisáætlun Max Verstappen gekk fullkomlega upp á meðan keppinautarnir í Ferrari tóku ákörðun sem varð til þess að liðið kastaði frá sér sigrinum.
,,Í þessari mótaröð hefurðu ekki efni á mistökum. Auðvitað er mjög erfitt að ná alltaf öllu réttu en ég er með gott teymi á bakvið mig skipað körlum og konum," sagði ríkjandi heimsmeistarinn Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing eftir að hafa borið sigur úr býtum í Ungverjalandskappakstrinum um nýliðna helgi.
Verstappen varpaði einnig ljósi á þátt Hönnu í sigri sínum. ,,Hanna, aðaltæknifræðingurinn okkar hélt ró sinni mjög vel í dag og skipti sköpum fyrir okkur. Hún er mjög góð í því sem hún gerir."
Þegar lófarnir snúa niður
Hanna Schmitz snýr lófunum niður að borði þegar hún er að taka mikilvæga ákvörðun í tengslum við keppnisáætlun Red Bull Racing á meðan kappakstur stendur yfir. Það hjálpar henni að halda einbeitingu.
,,Þetta er ótrúlega spennandi starf. Maður situr á brúninni á stólnum, eftir að hafa tekið mikilvæga ákvörðun, og bíður eftir því að sjá hvort hún muni skila sér," segir Hanna í viðtali sem birtist á heimasíðu Red Bull.

Hanna hefur ávallt þurft að berjast mikið fyrir sínu. Hún sótti meistaragráðu sína í vélaverkfræði hjá háskólanum í Cambridge áður en hún fór sem starfsnemi til Red Bull Racing árið 2009.
Hún segir það hafa tekið tíma fyrir stjórnendur hjá liðinu að byggja upp traust á henni, eitthvað sem hún vonar að verði ekki raunin fyrir konur sem feta í fótspor hennar.
,,Ég tel að það sé mikið af fólki sem hafi þá ósjálfrátt ekki trú á þér. Í mínu starfi þarftu að segja fólki hvað það eigi að gera og það þarf að sama skapi að hlusta á það sem þú ert að segja. Þetta snýst um að byggja upp traust og sem kona tel ég því miður að það hafi verið erfiðara en nú er þetta traust komið og ég vona að ungar konur sjái þetta sem tækifæri til þess að stíga upp, því þær geta það."