Linn Grant, kylfingur frá Svíþjóð, varð í gær fyrsta konan til að vinna mót á Evrópumótaröð karla á Scandinavian Mixed event, móti sem er ætlað fyririr bæði karla og konur.

Hún var með níu högga forskot á næstu menn, þar á meðal Henrik Stenson, fyrsta karlkylfing Svía til að vinna eitt af risamótunum fjórum.

Þá var hún 14 höggum á undan næsta kvenkylfingi, Gabriella Cowley sem deildi fimmtánda sæti á mótinu.

Hin 22 ára gamla Grant leiddi með tveimur höggum fyrir lokahringinn en í lok móts var hún búin að stinga Stenson og Marc Warren af.

Grant sem gerðist atvinnukylfingur á síðasta ári og er í 156. sæti á heimslistanum fékk 26 fugla og einn örn á mótinu.

Mótið hefur verið hluti af Evrópumótaröðinni í rúma þrjá áratugi en þetta er annað árið sem konur og karlar keppa saman.

Í viðtali við SkySports viðurkenndi Grant að það hefði veitt henni aukna hvatningu að vera að keppa við karla.

Grant sem á ættir að rekja til Skotlands er fædd og uppalin í Svíþjóð en afi hennar var skoskur atvinnukylfingur sem settist að í Svíþjóð.