Alþjóðasundsambandið kom í veg fyrir að Anita Alvarez myndi taka þátt í liðakeppni í listsundi eftir að henni var bjargað frá drukknun í gær þegar hún missti meðvitund á Heimsmeistaramótinu.

Þjálfari Anitu, fjórfaldi ólympíumeistarinn Andrea Fuentes, áttaði sig á stöðu mála og bjargaði Anitu eftir að hún missti meðvitund í lauginni á miðvikudag.

Það var í annað skiptið sem Anita missti meðvitund í keppni og var læknir bandaríska teymisins búinn að gefa grænt ljós á að Anita myndi keppa í dag en Alþjóðasundsambandið kom í veg fyrir það.

„Ákvörðunin var tekin af Alþjóðasundsambandinu. Ég er viss um að hún gæti tekið þátt,“ sagði læknir bandaríska teymisins en Alþjóðasundsambandið sagði ákvörðunina tekna með það að leiðarljósi að gæta upp á heilsu þátttakenda.