Það má með sanni segja að allir öku­mennirnir í For­múlu 1 hafi lagt alla bar­áttuna til hliðar í móta­röðinni til þess eins að fagna mögnuðum ferli fjór­falda heims­meistarans Sebastian Vet­tel sem um helgina mun keppa í sinni síðustu keppni í For­múlu 1 um helgina.

Vet­tel hefur á­kveðið að láta gott heita, í það minnsta í bili, og áttu öku­menn For­múlu 1 góða kvöld­stund saman á veitinga­stað í Abu Dhabi þar sem keppni helgarinnar fer fram.

Þjóð­verjinn, sem varð 35 ára á þessu ári hefur eins og áður sagði unnið fjóra heims­meistara­titla og komu þeir allir í röð tíma­bilin 2010-2013. Þá hefur Vet­tel unnið 53 keppnir á sínum ferli, staðið 122 sinnum á verð­launa­palli og þá er hann yngsti heims­meistari öku­manna í For­múlu 1 frá upp­hafi.

Vet­tel verður án efa sárt saknað í móta­röðinni, hann er eftir­læti margra og hefur fyrir löngu skipað sér sess sem goð­sögn í For­múlu 1.

Öku­mennirnir í For­múlu 1 hafa hver af öðrum lýst yfir á­nægju sinni með gær­kvöldið enda ekki á hverjum degi sem allur hópurinn sam­einast, hann er frekar þekktur fyrir harða bar­áttu innan brautar.

Sjö­faldi heims­meistarinn Sir Lewis Hamilton hyllir kollega sína í færslu á Insta­gram:

„Við eigum okkur langa sögu saman sem öku­menn og höldum á­fram að þróast sem ein­staklingar. Sama hvað á sér stað innan brautar þá þroskumst við saman og verðum betri með degi hverjum. Það að við höfum allir komið saman til þess að fagna lífinu og mögnuðum ferli Vet­tel í For­múlu 1 er klár­lega kvöld sem ég mun aldrei gleyma.“

Af við­brögðum öku­manna að dæma við gær­kvöldinu í færslum á sam­fé­lags­miðlum má draga þá á­lyktun að um ansi sér­stakt kvöld hafi verið að ræða þar sem allur á­greiningur og hiti innan mótaraðarinnar var lagður til hliðar.