Staðarblöðin í Liverpool segja að félagið sé að fylgjast með Moses Simon, kantmanni Gent en hann var síðasti maðurinn sem datt úr hóp Nígeríu fyrir Heimsmeistaramótið í Rússlandi 2018.

Hefur hann verið að glíma við meiðsli og kaus Gernot Rohr, þjálfari nígerska liðsins að skilja hann eftir þótt að hann myndi aðeins missa af einum leik en Nígería mætir Íslandi í annarri umferð D-riðilsins í Volgograd.

Fleiri lið í ensku úrvalsdeildinni eru að fylgjast með gangi mála hjá honum en hann á eitt ár eftir af samningi sínum í Belgíu og er talið að félagið myndi samþykkja tilboð upp á tíu milljónir punda.

Er talað um að Liverpool ætli sér að styrkja hópinn en félagið hefur þegar gengið frá kaupunum á Naby Keita og Fabinho fyrir næsta tímabil en Liverpool er einnig með augastað á Nabil Fekir.