Rætt var um framtíð Söru Bjarkar Gunnarsdóttur leikmanns Lyon í íþróttavikunni með Benna Bó sem er á dagskrá Hringbrautar alla föstudaga. Kjartan Atli Kjartansson var gestur samt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs.

Kjartan er umsjónarmaður Körfuboltakvölds á Stöð2 sport en þeir félagar hafa haft næg verkefni undanfarnar vikur og skilað sínu heim í stofur landsmanna með prýði.

Sara var tvö ár hjá frönsku risunum en hún sagði í viðtali við Morgunblaðið að hún hefði ekki fengið þann stuðning sem hún vonaðist eftir hjá Lyon. „Fyrir utan þetta magnaða móment þar sem hún skorar í úrslitaleik Meistaradeildarinnar spilar hún ekki nema rétt rúmlega 800 mínútur í deildinni. Auðvitað litar það að hún hafi eignast barn en þetta eru ekki 10 heilir deildarleikir. En hún komst á stærsta sviðið sem íslensk knattspyrnukona hefur komist og vann Meistaradeildina. Er hluti af trúlega einu besta kvennaliði sem hefur verið samsett og það verður spennandi að sjá næsta skref. Verður það England?“ spurði Hörður.

Sara er fyrsti leikmaður Lyon sem verður ólétt og þetta var því allt nýtt fyrir félaginu. „Þetta er að breytast hratt í kvennaboltanum og það er verið að stíga stór skref þar. En næst þegar leikmaður Lyon verður ólétt verður félagið klárlega betur í stakk búið til að takast á við þær aðstæður,“ sagði Hörður ennfremur.

Nánari umræðu má sjá hér fyrir neðan.