Manchester City mun í kvöld halda góðgerðarleik til heiðurs belgíska knattspyrnumannsins Vincent Kompany sem lék með liðinu frá 2008 til 2019 á Etihad-leikvanginum í kvöld.

Það er í takt við síðustu ár Kompany hjá Manchester City sem voru meiðslum hrjáð að belgíski varnarmaðurinn mun ekki leika í þessum leik vegna meiðsla sinna.

Kompany sem er spilandi þjálfari hjá belgíska efstudeildarliðinu Anderlecht er að glíma við meiðsli aftan í læri og mun því horfa á þennan góðgerðarleik af hliðarlínunni.

„Ég mun því miður ekki spila í þessum leik og það er kannski í takt við það hvernig ferillinn hefur þróast síðustu árin. Ég er að glíma við meiðsli aftan í læri eins og svo oft áður," segir Kompany um stöðu mála fyrir leikinn í kvöld.

Fyrsta tímabil Kompany sem spilandi þjálfari hefur ekki verið dans á rósum en Anderlecht er í 13. sæti belgísku efstu deildarinnar með fimm stig eftir sex leiki.

Kompany hefur ákveðið að aðskilja störf sín sem fyrirliði Anderlecht og þjálfari liðsins á leikdegi eftir slæma byrjun og Walesverjinn Simon Davies sem er í þjálfarateymi belgíska liðsins stýrir liðinu fyrir leik og af hliðarlínunni.