Það verður við ramman reip að draga þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu fær ríkjandi heimsmeistara, Frakka, í heimsókn á Laugardalsvöllinn í leik liðanna í sjöttu umferð í undankeppni EM 2020. Ekki er hægt að segja að tölfræðin sá á bandi íslenska liðsins en liðin hafa mæst 14 sinnum í sögunni og Ísland hefur aldrei haft betur. Tíu sinnum hefur franska liðið farið með sigur af hólmi og fjórum sinnum hafa liðin gert jafntefli.

Frakkar unnu sannfærandi 4-0 sigur þegar liðin áttust við í fyrri leik sínum í undankeppninni en þar áður mættust liðin í vináttulandsleik þar sem íslenska liðið komst tveimur mörkum yfir með mörkum Birkis Bjarnasonar og Kára Árnasonar. Franska liðið kom hins vegar til baka og jafnaði metin í 2-2 og hélt tölfræði sinni um að vera taplaust gegn Íslandi.

Það þarf svo að fara allt aftur til ársins 1998 til þess að finna síðasta skiptið þar sem Ísland náði að hrifsa stig af Frakklandi í mótsleik. Þá voru Frakkar nýkrýndir heimsmeistarar frá því um sumarið og mættu sigurvissir til leiks á pakkfullan Laugardalsvöllinn. Allir sem vettlingi gátu valdið sáu til þess að eins margir og mögulegt væri kæmust á völlinn og hent var upp bráðabirgðastúkum bak við bæði mörkin til þess að auka stemminguna.

Ríkharður Daðason stökk eins og lax fyrir ofan Fabian Barthez og stangaði boltann í netið eftir hárnákvæma fyrirgjöf Rúnars Kristinssonar en Cristoph Dugarry eyðilagði partíið með því að sjá til þess að Frakkar færu með stig í farteskinu af Laugardalsvellinum það haustkvöldið.

Það er spurning hvaða íþróttafréttamaður bregður sér í hlutverk Ingólfs Hannessonar sem fagnaði jafnteflinu innilega með Guðjóni Þórðarsyni, þáverandi þjálfara íslenska liðsins, og smelli kossi á kinn Eriks Hamrén takist honum og lærisveinum hans að brjóta ísinn með sigri í leiknum annað kvöld.

Frakkland verður án lykilleikmanna í þessum leik en Hugo Lloris meiddist um síðustu helgi á olnboga og Samuel Umtiti, Paul Pogba og Kylian Mbappé eru þar að auki að glíma við meiðsli. Hjá Íslandi er stórt skarð hoggið með fjarveru fyrirliða liðsins, Arons Einars Gunnarssonar, af miðsvæðinu og þá er Hörður Björgvin Magnússon meiddur og Rúnar Alex Rúnarsson að bíða eftir frumburði sínum.

Mannval Frakka er slíkt að þótt þeir væru vissulega til í að hafa alla leikmenn sína klára í slaginn koma afar frambærilegir leikmenn í stað fyrrgreindra leikmanna. Það mun líklega ekki sjá högg á vatni hjá franska liðinu í þessum leik. Það er aftur á móti lag fyrir Ísland að bæta upp fyrir tapið í Albaníu með óvæntum sigri annað kvöld.

Leikmenn íslenska liðsins fagna marki Birkis Bjarnasonar í vináttulandsleik liðsins gegn Frakklandi síðasta haust.
Fréttablaðið/Getty