„Það hjálpar að hafa skorað tvö mörk í síðasta landsliðsverkefni og vonandi getur maður bætt við í þessum leikjum,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson fullur sjálfstrausts þegar fréttamenn ræddu við hann fyrir æfingu landsliðsins í dag.

Framundan er leikur gegn Frakklandi, ríkjandi heimsmeisturum með bestu leikmenn heims innanborðs en Kolbeinn kvaðst nokkuð brattur.

„Þeir eru með nokkra leikmenn í heimsklassa í öllum stöðum, við þurfum að eiga algjöran toppleik til að ná í úrslit. Það voru nokkrir hlutir sem fóru úrskeiðis gegn Albaníu sem þeir eru eflaust búnir að skoða vel en það er okkar að bæta úr því, koma þeim á óvart og þá getum við fengið eitthvað úr þessum leik.“

Sjálfur var Kolbeinn ekki á vellinum síðast þegar Frakkar komu í heimsókn fyrir 21 ári síðan en hann kvaðst muna vel eftir leiknum.

„Ég fylgdist með leiknum heima og man vel eftir honum, ég man vel eftir því hvar ég sat enda minnisstæður leikur. Vonandi náum við fyrsta sigrinum gegn Frakklandi á föstudaginn, það er kominn tími á það.

Framherjinn segist vera tilbúinn að byrja ef Erik Hamrén kalli á hann á föstudaginn.

„Ég tel mig vera kominn í það stand að geta byrjað báða leikina í þessu landsleikjahléi en ég tek bara einn leik í einu. Líkamlegt ástand mitt er nægilega gott að spila 90. mínútur og ég finn að ég er að verða beittari. Það er stöðug bæting, ég finn það og allar tölur það sýna það úti,“ sagði Kolbeinn sem sagði að árið hafði gengið betur en hann þorði að vona.

„Það má algjörlega segja að þetta hafi gengið framar væntingum. Ef mér hefði verið boðið að vera kominn þetta langt í byrjun árs hefði ég stokkið á tækifærið. Það er alltaf óvissa eftir svona langan tíma hvernig standi maður er í en ég er bara hæstánægður að geta spilað og að vera farinn að spila og skora aftur fyrir landsliðið.“

Kolbeinn er kominn upp í 25 landsliðsmörk og vantar því aðeins eitt mark til að ná markameti Eiðs Smára Guðjohnsen.

„Ég passa mig að hugsa ekkert um þetta og einblína á leikinn en það hefur fólk minnst á þetta við mig.“