Logi Geirs­son, fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­maður í hand­bolta segir leik­menn lands­liðsins hafa mikið að sanna í þeim tveimur leikjum sem fram undan eru gegn Tékkum, að heiman og heima á næstu dögum.

„Þeir þurfa að sanna sig og maður hefur nú sjálfur alveg verið í ís­lenska lands­liðinu þegar að mikið hefur gengið á, meðal annars þjálfara­skipti, og núna er bara komið að því að leik­menn liðsins stigi upp. Ég held að það geri sér allir grein fyrir því og hvað mig varðar, þá kýs ég að vera ekkert að horfa í bak­sýnis­spegilinn á HM. Það mót er búið, búið að kryfja það sem gekk á þar mjög vel og nú er lands­liðið bara að ganga í gegnum á­kveðna um­breytinga­tíma.“

Stórkostleg gæði í liðinu

Þrátt fyrir von­brigði á HM, þar sem gengi lands­liðsins var langt undir væntingum og ævin­týrið endaði í milli­riðlum, segir Logi það ekki dyljast neinum hvaða gæði búi í ís­lenska lands­liðinu.

„Liðið er enn þá jafn gott, býr yfir stór­kost­legum gæðum, nú þarf bara að ná því besta fram í liðinu. Mér fannst þessi á­kvörðun HSÍ, að láta Ágúst Jóhanns­son og Gunnar Magnús­son stýra liðinu í þessum leikjum sem fram undan eru, vera frá­bær. Þetta var það lang­besta í stöðunni, trúið mér líka þegar að ég segi að þessir tveir þjálfarar gera sér alveg grein fyrir því að HSÍ hefur ekki ráðið inn lands­liðs­þjálfara til lengri tíma litið.

Ágúst og Gunnar eru báðir frá­bærir þjálfarar, hafa þjálfað í hæsta klassa hér heima á Ís­landi og báðir með marga Ís­lands­meistara­titla að baki. Ég er mjög hrifinn af hug­mynda­fræðinni þeirra, ég tel að við munum fá að sjá eitt­hvað nýtt í þessum tveimur leikjum lands­liðsins undir þeirra stjórn og svo verður bara að koma í ljós hvað HSÍ gerir í fram­haldinu.

Spilað í skugga sögusagna

Margir furðuðu sig á tíma­setningu á á­kvörðun HSÍ er varðar starfs­lok fyrrum lands­liðs­þjálfarans, Guð­mundar Guð­munds­sonar undir lok febrúar þegar stutt var í leiki liðsins í undan­keppni EM.

„Mér finnst þessi tíma­setning ekkert verri en hver önnur. Lausnin sem kom í kjöl­farið er góð, þetta eru menn með mikla reynslu og þeir hafa verið við­riðnir liðið undan­farin ár. Það komu strax fram breyttar á­herslur hjá þeim, við sjáum það meðal annars á lands­liðs­hópnum sem var valinn. Vissu­lega munu þeir koma til með að láta liðið spila svipuð kerfi, það er mjög vel sam­stillt á þessi kerfi frá síðasta stór­móti.“

Við­loðandi þetta verk­efni eru sögu­sagnir um það hver muni á endanum taka við ís­lenska lands­liðinu til lengri tíma, innan við ár er þar til flautað verður til leiks á EM í Þýska­landi.

„Nöfnin sem hafa verið nefnd til sögunnar varðandi lands­liðs­þjálfara­starfið eru mörg, við erum líka að tala um heitasta lands­liðs­þjálfara­starfið um þessar mundir. Það vilja allir taka við þessu liði af því að gæðin sem búa í því eru svaka­lega mikil. Gæðin hafa ekkert minnkað þrátt fyrir slakan árangur á HM, þau eru þarna enn þá.

Við höfum verið að heyra nöfn á borð við Snorra Stein Guð­jóns­son og Dag Sigurðs­son vera bendluð við lands­liðs­þjálfara­starfið. Dagur er búinn að gefa það út að hann sé ekki að fara taka við liðinu núna. Snorri Steinn kemur fyrstur upp í hugan hjá flestum.“

Logi vill samt sem áður að gefa eigi Ágústi og Gunnari smá svig­rúm til þess að stýra liðinu í þessu verk­efni.

„Það er oft þannig að fólk sér ekki skóginn fyrir trjánum, Ágúst og Gunnar eru frá­bærir þjálfarar. Tíminn verður bara að fá að leiða það í ljós hvað gerist.“

Munu mæta grimmir til leiks

Staða ís­lenska lands­liðsins í riðli sínum í undan­keppninni er góð. Liðið situr í efsta sæti með fullt hús stiga eftir tvo leiki, líkt og næsti and­stæðingur liðsins, Tékk­land. Eistar og Ísraelar sitja síðan í 3. og 4. sæti, stiga­laus. Efstu tvö lið riðilsins komast á­fram í loka­keppni EM og þarf eitt­hvað ævin­týra­legt stór­slys svo að Ís­land verði ekki á meðal þátt­töku­þjóða þar.

Hvað erum við að fara sjá í þessum leikjum gegn Tékkum?

„Ég held við séum að fara sjá lið sem er að fara þjappa sér saman, berjast enn þá meira. Síðasta stór­mót var skellur fyrir alla sem komu að því, það er ekkert launungar­mál að um von­brigði var að ræða. Menn munu, að mínu mati, mæta mjög grimmir í þetta verk­efni. Við munum sjá mikla á­kefð, mikinn vilja sem og sam­stöðu.“

Klefinn hafi verið innsiglaður

Ýmis­legt hafi verið rætt í að­draganda þessara leikja.

„Hand­boltinn, sér í lagi síðasta stór­mót hjá ís­lenska lands­liðinu, hefur verið lengi í kast­ljósi fjöl­miðla. Þjálfara­málin hafa verið á­berandi í deiglunni sem og að á­kveðnum málum hafi verið lekið úr klefa lands­liðsins.

Ég per­sónu­lega þekki ekki þær sögur, veit ekki hvað gekk á þar en ein­hverjir hafa sagt að klefinn hafi hrein­lega lekið. Það eru ein­hverjar verstu fréttir sem ég hef heyrt. Það er náttúru­lega bara þannig að þessi klefi hefur verið inn­siglaður núna.

Það mun ekki leka orð úr þessum klefa og ég þekki það bara sjálfur frá mínum tíma í lands­liðinu að maður sagði engum frá því sem gerðist innan klefans. Þetta er heilagasti staður liðsins, þarna gerist allt og öll sam­skipti fara þarna fram.“

Gagn­rýnin eftir HM hafi ekki bara beinst að lands­liðs­þjálfaranum, Guð­mundi Guð­munds­syni.

„Það voru líka leik­menn sem fengu á sig gagn­rýni.“

Margir á góðum stað

Í ljósi alls þess sem hafi gengið á undan­farnar vikur sé gaman að sjá marga af leik­mönnum lands­liðsins vera að brillera með sínum fé­lags­liðum.

„Aron Pálmars­son hefur verið á mikilli siglingu með Ála­borg, Gísli Þor­geir er maður leiksins trekk í trekk með Mag­deburg í Þýska­landi og svo mætti á­fram telja. Menn eru að spila vel og gæðin í lands­liðinu eru svaka­leg. Það er ó­trú­lega spennandi mót fram undan en vissu­lega eru ó­vissu­þættir til staðar.

En er ekki pressa á sam­bandinu að klára ráðningu á nýjum þjálfara sem fyrst?

„Auð­vitað er pressa á sam­bandinu, ef for­ráða­menn HSÍ hafa á­kveðið að taka inn nýjan þjálfara eftir þetta verk­efni þá held ég að það gerist um leið og það er af­staðið. Það mun ekki líða langur tími því hver dagur með lands­liðinu er á við tvær vikur. Þjálfarar þurfa sinn tíma til að undir­búa liðið og á­kveða stefnuna.“

Loga finnst HSÍ hafa staðið sig mjög vel undan­farið.

„Teknar hafa verið hár­réttar á­kvarðanir. Mér hefði fundist það glap­ræði að ráða inn nýjan þjálfara, með nýjar á­herslur, fyrir þetta verk­efni. Liðið er mjög sjálf­spilandi núna, Guð­mundur hefur inn­leitt á­kveðna hluti með Ágústi og Gunnari og svo koma ein­hverjar smá á­herslu­breytingar núna. Auð­vitað eru margir spenntir að sjá hvað mun gerast í þessum tveimur leikjum sem eru fram undan, það hefur ekki verið talað um neitt annað en þetta lands­lið eftir HM.“