Logi Geirsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta segir leikmenn landsliðsins hafa mikið að sanna í þeim tveimur leikjum sem fram undan eru gegn Tékkum, að heiman og heima á næstu dögum.
„Þeir þurfa að sanna sig og maður hefur nú sjálfur alveg verið í íslenska landsliðinu þegar að mikið hefur gengið á, meðal annars þjálfaraskipti, og núna er bara komið að því að leikmenn liðsins stigi upp. Ég held að það geri sér allir grein fyrir því og hvað mig varðar, þá kýs ég að vera ekkert að horfa í baksýnisspegilinn á HM. Það mót er búið, búið að kryfja það sem gekk á þar mjög vel og nú er landsliðið bara að ganga í gegnum ákveðna umbreytingatíma.“
Stórkostleg gæði í liðinu
Þrátt fyrir vonbrigði á HM, þar sem gengi landsliðsins var langt undir væntingum og ævintýrið endaði í milliriðlum, segir Logi það ekki dyljast neinum hvaða gæði búi í íslenska landsliðinu.
„Liðið er enn þá jafn gott, býr yfir stórkostlegum gæðum, nú þarf bara að ná því besta fram í liðinu. Mér fannst þessi ákvörðun HSÍ, að láta Ágúst Jóhannsson og Gunnar Magnússon stýra liðinu í þessum leikjum sem fram undan eru, vera frábær. Þetta var það langbesta í stöðunni, trúið mér líka þegar að ég segi að þessir tveir þjálfarar gera sér alveg grein fyrir því að HSÍ hefur ekki ráðið inn landsliðsþjálfara til lengri tíma litið.
Ágúst og Gunnar eru báðir frábærir þjálfarar, hafa þjálfað í hæsta klassa hér heima á Íslandi og báðir með marga Íslandsmeistaratitla að baki. Ég er mjög hrifinn af hugmyndafræðinni þeirra, ég tel að við munum fá að sjá eitthvað nýtt í þessum tveimur leikjum landsliðsins undir þeirra stjórn og svo verður bara að koma í ljós hvað HSÍ gerir í framhaldinu.
Spilað í skugga sögusagna
Margir furðuðu sig á tímasetningu á ákvörðun HSÍ er varðar starfslok fyrrum landsliðsþjálfarans, Guðmundar Guðmundssonar undir lok febrúar þegar stutt var í leiki liðsins í undankeppni EM.
„Mér finnst þessi tímasetning ekkert verri en hver önnur. Lausnin sem kom í kjölfarið er góð, þetta eru menn með mikla reynslu og þeir hafa verið viðriðnir liðið undanfarin ár. Það komu strax fram breyttar áherslur hjá þeim, við sjáum það meðal annars á landsliðshópnum sem var valinn. Vissulega munu þeir koma til með að láta liðið spila svipuð kerfi, það er mjög vel samstillt á þessi kerfi frá síðasta stórmóti.“
Viðloðandi þetta verkefni eru sögusagnir um það hver muni á endanum taka við íslenska landsliðinu til lengri tíma, innan við ár er þar til flautað verður til leiks á EM í Þýskalandi.
„Nöfnin sem hafa verið nefnd til sögunnar varðandi landsliðsþjálfarastarfið eru mörg, við erum líka að tala um heitasta landsliðsþjálfarastarfið um þessar mundir. Það vilja allir taka við þessu liði af því að gæðin sem búa í því eru svakalega mikil. Gæðin hafa ekkert minnkað þrátt fyrir slakan árangur á HM, þau eru þarna enn þá.
Við höfum verið að heyra nöfn á borð við Snorra Stein Guðjónsson og Dag Sigurðsson vera bendluð við landsliðsþjálfarastarfið. Dagur er búinn að gefa það út að hann sé ekki að fara taka við liðinu núna. Snorri Steinn kemur fyrstur upp í hugan hjá flestum.“
Logi vill samt sem áður að gefa eigi Ágústi og Gunnari smá svigrúm til þess að stýra liðinu í þessu verkefni.
„Það er oft þannig að fólk sér ekki skóginn fyrir trjánum, Ágúst og Gunnar eru frábærir þjálfarar. Tíminn verður bara að fá að leiða það í ljós hvað gerist.“
Munu mæta grimmir til leiks
Staða íslenska landsliðsins í riðli sínum í undankeppninni er góð. Liðið situr í efsta sæti með fullt hús stiga eftir tvo leiki, líkt og næsti andstæðingur liðsins, Tékkland. Eistar og Ísraelar sitja síðan í 3. og 4. sæti, stigalaus. Efstu tvö lið riðilsins komast áfram í lokakeppni EM og þarf eitthvað ævintýralegt stórslys svo að Ísland verði ekki á meðal þátttökuþjóða þar.
Hvað erum við að fara sjá í þessum leikjum gegn Tékkum?
„Ég held við séum að fara sjá lið sem er að fara þjappa sér saman, berjast enn þá meira. Síðasta stórmót var skellur fyrir alla sem komu að því, það er ekkert launungarmál að um vonbrigði var að ræða. Menn munu, að mínu mati, mæta mjög grimmir í þetta verkefni. Við munum sjá mikla ákefð, mikinn vilja sem og samstöðu.“
Klefinn hafi verið innsiglaður
Ýmislegt hafi verið rætt í aðdraganda þessara leikja.
„Handboltinn, sér í lagi síðasta stórmót hjá íslenska landsliðinu, hefur verið lengi í kastljósi fjölmiðla. Þjálfaramálin hafa verið áberandi í deiglunni sem og að ákveðnum málum hafi verið lekið úr klefa landsliðsins.
Ég persónulega þekki ekki þær sögur, veit ekki hvað gekk á þar en einhverjir hafa sagt að klefinn hafi hreinlega lekið. Það eru einhverjar verstu fréttir sem ég hef heyrt. Það er náttúrulega bara þannig að þessi klefi hefur verið innsiglaður núna.
Það mun ekki leka orð úr þessum klefa og ég þekki það bara sjálfur frá mínum tíma í landsliðinu að maður sagði engum frá því sem gerðist innan klefans. Þetta er heilagasti staður liðsins, þarna gerist allt og öll samskipti fara þarna fram.“
Gagnrýnin eftir HM hafi ekki bara beinst að landsliðsþjálfaranum, Guðmundi Guðmundssyni.
„Það voru líka leikmenn sem fengu á sig gagnrýni.“
Margir á góðum stað
Í ljósi alls þess sem hafi gengið á undanfarnar vikur sé gaman að sjá marga af leikmönnum landsliðsins vera að brillera með sínum félagsliðum.
„Aron Pálmarsson hefur verið á mikilli siglingu með Álaborg, Gísli Þorgeir er maður leiksins trekk í trekk með Magdeburg í Þýskalandi og svo mætti áfram telja. Menn eru að spila vel og gæðin í landsliðinu eru svakaleg. Það er ótrúlega spennandi mót fram undan en vissulega eru óvissuþættir til staðar.
En er ekki pressa á sambandinu að klára ráðningu á nýjum þjálfara sem fyrst?
„Auðvitað er pressa á sambandinu, ef forráðamenn HSÍ hafa ákveðið að taka inn nýjan þjálfara eftir þetta verkefni þá held ég að það gerist um leið og það er afstaðið. Það mun ekki líða langur tími því hver dagur með landsliðinu er á við tvær vikur. Þjálfarar þurfa sinn tíma til að undirbúa liðið og ákveða stefnuna.“
Loga finnst HSÍ hafa staðið sig mjög vel undanfarið.
„Teknar hafa verið hárréttar ákvarðanir. Mér hefði fundist það glapræði að ráða inn nýjan þjálfara, með nýjar áherslur, fyrir þetta verkefni. Liðið er mjög sjálfspilandi núna, Guðmundur hefur innleitt ákveðna hluti með Ágústi og Gunnari og svo koma einhverjar smá áherslubreytingar núna. Auðvitað eru margir spenntir að sjá hvað mun gerast í þessum tveimur leikjum sem eru fram undan, það hefur ekki verið talað um neitt annað en þetta landslið eftir HM.“