Nágrannafélögin og erkifjendurnir Arsenal og Chelsea leika í kvöld seinni leiki liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar.

Eru miklar líkur á því að liðin mætist í úrslitaleiknum sjálfum sem fer fram í Bakú í lok mánaðar.

Staða Arsenal fyrir seinni leikinn í Valencia er afar vænleg eftir 3-1 sigur Arsenal á Valencia í fyrri leik liðanna.

Að sama skapi er pressa á Arsenal að landa Evrópudeildartitlinum til að öðlast þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Til þess þarf Arsenal að vinna keppnina eftir að hafa misst af meistaradeildarsæti heima fyrir.

Spennan er meiri í einvígi Chelsea og Frankfurt. Chelsea náði útivallarmarki í Þýskalandi og er því í góðri stöðu fyrir leikinn í kvöld.

Chelsea hefur þegar tryggt sér þáttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili en Maurizio Sarri væri eflaust til í að enda erfitt fyrsta tímabil á Brúnni með titli.