Þjóð­verjinn Sebastian Vet­tel mun um komandi helgi taka þátt í síðustu keppnis­helgi sinni í For­múlu 1. Vet­tel er með dáðustu sonum For­múlu 1 þar sem hann hefur fjórum sinnum orðið heims­meistari öku­manna og segist hann ekki hræðast komandi keppnis­helgi þó svo að hann sé sorg­mæddur yfir því að þessum kafla hans er að ljúka.

Vet­tel var spurður að því í hlað­varps­þættinum Beyond the Grid hvort komandi keppnis­helgi í Abu Dhabi, sem verður hans síðasta í For­múlu 1 sé frekar spennandi við­fangs­efni frekar en sorg­leg stað­reynd.

„Já þannig horfir þetta við mér,“ svaraði Vet­tel. „Ég veit ekki hvort ég muni brotna saman eða komi til með að fella tár. Kannski hljómar þetta undar­lega en ég hef hugsað um þessa til­teknu stund svo lengi og fyrir mér lítur þetta út fyrir að vera rétti tíma­punkturinn.“

Það veldur því að hann hræðist ekki komandi keppnis­helgi í Abu Dhabi.

„Ég hlakka frekar til hennar og þess sem mun fylgja í fram­haldinu. Ég veit að adrena­lín sjokkið sem ég þekki mun hverfa, það verður ekki lengur til staðar. Spennan sem tengist því að fara keyra á brautum eins og Suzuka í Japan, keyra sjálfan mig og bílinn til ystu marka, finna kraftana sem fylgja því, það mun allt hverfa.

Ég er sorg­mæddur yfir því en að sama skapi þá munu eiga sér stað nokkurs konar skipti og inn kemur eitt­hvað öðru­vísi og spennandi.“

Sebastian Vet­tel, fjór­faldur heims­meistari öku­manna hefur fyrir löngu ritað nafn sitt í sögur­bækur For­múlu 1 sem einn sigur­sælasti öku­maður mótaraðarinnar, um al­gjöra goð­sögn er að ræða og verður mikill sjónar­sviptir af þessum geð­þekka öku­manni.

Vet­tel var ekki lengi að stimpla sig inn sem einn af mest spennandi öku­mönnum For­múlu 1 árið 2008. Strax á sínu fyrsta tíma­bili í móta­röðinni vann hann sína fyrstu keppni á hinni sögu­frægu Monza.

Vet­tel hefur þróast sem öku­maður og ein­stak­lingur á tíma sínum í For­múlu 1. Hann kemur inn sem ungur og hungraður öku­maður sem hafði það eitt að mark­miði að festa sig í sessi í móta­röðinni. Öku­maður sem hafði allt til alls til þess að skara fram úr.

Hungrið í árangur hefur fylgt honum allan hans öku­manns­feril en hann hefur einnig fundið annan til­gang sam­hliða því og nýtt sér stöðu sína til þess að benda á hluti sem betur mættu fara, bæði í tengslum við um­hverfis­mál sem og réttindi minni­hluta­hópa