Bardagakappinn Gunnar Nelson mætir Bretanum Leon Edwards inni í búrinu í London um helgina. Þetta er annar bardagi Gunnars á síðustu fjórum mánuðum eftir sautján mánaða fjarveru vegna meiðsla og fær hann verðugan andstæðing í Edwards og það í heimalandi hans. 

Leon er í tíunda sæti styrkleikalistans í veltivigt, þremur sætum fyrir ofan Gunnar og kemur inn í þennan bardaga fullur sjálfstrausts eftir sex sigra í röð undanfarin þrjú ár.

Bardagi Gunnars er einn af aðalbardögum kvöldsins (e. co-main event) ásamt bardaga Darrens Till og Jorge Masvidal og fer fram í O2-höllinni í London.

Bardagakvöldið hefst klukkan 17.00 að íslenskum tíma og má áætla að Gunnar stígi inn í búrið fyrir bardagann um tíuleytið.

Edwards, sem er 27 ára, er fæddur á Jamaíku en fluttist ungur að árum til Birmingham á Englandi. Hann byrjaði snemma að æfa bardagalistir og barðist í fyrsta sinn innan UFC 23 ára gamall og tapaði tveimur af fyrstu fjórum bardögum ferilsins.

Annar bardagi hans innan UFC vakti athygli enda stöðvaði dómarinn bardagann eftir átta sekúndur þegar Edwards var búinn að slá Seth Baczynski í gólfið og láta höggin dynja þar til hann var stöðvaður. 

Hefur aðeins einn bardagi innan veltivigtarinnar tekið skemmri tíma en þessar átta sekúndur sem það tók Edwards að leggja hinn pólska Baczynski­ á heimavelli hans í Póllandi.

Í tíu bardögum Edwards innan UFC hafa sjö ráðist af dómaraúrskurði sem gefur til kynna að hann sé ekki fljótur að þreytast og af síðustu sex sigrum hans unnust fjórir þeirra á dómaraúrskurði eftir að ekki tókst að útkljá sigurvegara í tilætluðum lotum.

Gunnar færðist upp um tvö sæti á styrkleikalista UFC þegar hann vann öruggan sigur á Alex Oliveira í Toronto.

Sviðsljósið var á Íslendingnum fyrir bardagann gegn Oliveira eftir langa fjarveru vegna meiðsla og stóðst hann prófið með hæstu einkunn þegar hann sigraði Oliveira með hengingartaki.

Það skilaði honum í tólfta sætið á sínum tíma en með sigri í kvöld gæti Gunnar blandað sér í hóp þeirra tíu efstu á styrkleikalista UFC. Með því ættu að opnast möguleikarnir á stærri bardögum í framtíðinni fyrir íslenska bardagakappann.