Fréttablaðið heyrði í Kristjáni Einari Kristjánssyni, umsjónarmanni Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn í morgun og spurði hann nánar út í keppni helgarinnar.

,,Ég er að reyna fá röddina mína til baka eftir þessa veislu," segir Kristján Einar í samtali við Fréttablaðið í morgun. ,,Þetta er að mínu mati besti sigur Hamilton á ferlinum, hann er bara frá einhverri annarri plánetu."

Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn
Mynd: Kristján Einar

Hamilton þurfti á öllum hæfileikum sínum að halda um helgina. Hann var hraðastur í tímatökum á föstudaginn en var síðan dæmdur úr leik þar sem bilið sem myndaðist er DRS kerfi afturvængsins á bíl hans reyndist of mikið.

Hann ræsti því aftastur í sprettkeppninni sem fór fram á laugardaginn en sýndi snilli sína og endaði í 5. sæti þar. Hann þurfti síðan að taka fimm sæta refsingu fyrir að hafa endurnýjað hluta í vél bílsins og ræsti því tíundi í keppni gærdagsins.

,,Þetta var liðssigur fyrir Mercedes þrátt fyrir þetta klúður í tímatökunum sem sneri að tæknilegu atriði er varðaði bílinn sem varð Hamilton að falli þar, hann var dæmdur úr leik. Ég hugsa að Hamilton hafi komið Mercedes mönnum á óvart um helgina ef við horfum á það hversu miklu hann náði úr bílnum," sagði Kristján Einar í samtali við Fréttablaðið.

GettyImages

Hann segir úrslit helgarinnar hafa komið á óvart þar sem að stemmningin var með Red Bull í liði fyrir keppni eftir sigra í Texas og Mexíkó. ,,Brasilía átti að vera braut sem myndi henta Red Bull bílnum vel þannig að úrslit helgarinnar komu mjög á óvart."

Það var ljóst eftir sigur Hamilton hversu miklu máli þetta skipti fyrir Mercedes. Skilaboð Toto Wolff, liðsstjóra Mercedes til Hamilton eftir sigurinn voru skýr: ,,Lewis svona bregst maður við því að fá tuttugu og fimm sæta refsingu, ótrúleg frammistaða."

Eftir úrslit sprettkeppninnar voru skilaboðin frá Toto afdráttarlausari: ,,Frábær frammistaða Lewis, fjandinn hirði þá alla."

Kristján segir rosalega spennu ríkja á milli Red Bull og Mercedes. ,,Þetta er búið að vera stríð á mili Mercedes og Red Bull frá fyrstu keppni en Toto upplifði þetta greinilega þannig um helgina eins og það væri allt á móti þeim."

Aðeins þrjár keppnir eru eftir af tímabilinu. ,,Þetta er bara stríð. Tvær af þeim eru á brautum sem hefur ekki verið keppt á áður. Síðasta keppnin er síðan á breyttri Abu Dhabi braut þannig að það veit í raun og veru enginn við hverju á að búast."

Kristján segir úrslit helgarinnar setja baráttuna fram undan í virkilega spennandi búning fyrir áhorfendur. ,,Bæði Verstappen og Hamilton hafa þetta í hendi sér. Ef að Hamilton vinnur rest þá verður hann heimsmeistari, ef að Verstappen vinnur rest þá verður hann heimsmeistari."

GettyImages

Verstappen endaði í 2. sæti í gær en er enn á toppi stigakeppni ökumanna. ,,Verstappen er klárlega í betri stöðu með fjórtán stiga forystu en hættan fyrir Hamilton var að ef hann hefði ekki unnið þessa helgina og Max hefði náð að bæta forskot sitt þá hefði hann átt efni á því að detta úr keppni í einhverri af næstu keppnum."

Hann segir eitt víst fyrir síðustu keppnir tímabilsins. ,,Þessar síðustu keppnir verða sturlaðar, það getur ekkert annað gerst úr þessu," sagði Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn.