Michael Cox, blaða­maður The At­hletic skrifar í dag at­hyglis­verða grein um mál­efni enska karla­lands­liðsins í knatt­spyrnu en miklar vanga­veltur eru um fram­tíð lands­liðs­þjálfarans Gareth Sout­hgate og ýjað að því að hann verði látinn fara eftir Heims­meistara­mótið í Katar. Margir hafa verið nefndir sem mögu­legir arf­takar hans en Cox spyr hvort enska knatt­spyrnu­sam­bandið eigi ekki að líta sér nær og ráða Sarinu Wi­eg­man, lands­liðs­þjálfara enska kvenna­lands­liðsins.

Wi­eg­man hefur gert frá­bæra hluti með enska kvenna­lands­liðið og gerði liðið að Evrópu­meisturum í sumar. Hún hafði gert slíkt hið sama með hollenska lands­liðið fimm árum áður.

Cox spyr af hverju knatt­spyrnu­stjórar á borð við Graham Potter Eddi­e Howe séu nefndir til sögunnar í þessum efnum. Þeir séu svo til ný­búnir að taka við fé­lags­liði. Þá hafi knatt­spyrnu­stjórar á vorð við Frank Lampard og Ste­ven Gerrard ekki sannað sig að fullu í starfi. Þá séu mögu­leikarnir á að ráða stjóra á borð við Thomas Tuchel, Mauricio Pochettino og Brendan Rod­gers litlir.

„Svo er það sem er talið vera djarfi kosturinn (Sarina Wi­eg­man)," skrifar Cox í grein hjá The At­hletic. „Ef mark­mið Eng­lands er að vinna EM 2024 þá eru það góðar fréttir fyrir knatt­spyrnu­sam­bandið að það er nú þegar með þjálfara innan sinna raða sem hefur unnið Evrópu­mót tvisvar sinnum. Lið Sarinu á EM 2017 og 2022 töpuðu ekki leik og milli þessara móta kom hún hollenska lands­liðinu einnig í úr­slita­leik Heims­meistara­mótsins."

Á pappír standist Wi­eg­man allar hæfni­kröfur. Það sem er þyrnir í augum margra er að hún er kona og af­rekar hennar hafa komið í kvenna­boltanum.

„En það er klár­lega hægt að færa rök fyrir því að feril­skrá Sarinu Wi­eg­man býður upp á merkari af­rek en margir af öðrum þjálfurum sem nefndir eru til sögunnar. Já hún hefur verið að þjálfa leik­menn af öðru kyni en yrðu það stærri breytingar en að fara úr því að þjálfa fé­lags­lið yfir í að þjálfa lands­lið."

Cox bendir á að Wi­eg­man hafi skarað fram úr á sviði þar sem Sout­hgate hafi mis­tekist. „Henni hefur tekist að taka á­kvarðanir í stórum leikjum sem hafa breytt þeim á meðan Sout­hgate hefur mis­tekist að gera það, til að mynda á móti Króatíu árið 2018 og Ítalíu 2021."

Leik­menn enska kvenna­lands­liðsins hafi oft nefnt hvernig Wi­eg­man undir­búi liðið fyrir hvaða stöðu sem upp getur komið á meðan Sout­hgate sé með plan í byrjun en eigi erfitt með að að­laga sig.

Cox spyr sig samt hvort Wi­eg­man myndi þiggja starfið en bendir svo á tvo þætti. Hún hafi yfir­gefið hollenska lands­liðið á sínum tíma. Spennandi verk­efni hafi verið að taka við enska lands­liðinu og hún þénar meira í því starfi.

Það sama yrði upp á teningnum hjá enska karla­lands­liðinu. Launin eru hærri í karla­boltanum og þá er það eitt mest spennandi lands­liðs­þjálfarstarf í heimi að taka við enska karla­lands­liðinu í knatt­spyrnu.