„Það er ofboðslega ljúf tilfinning að klára þetta í þessum leik. Við ætluðum ekki að hleypa neinni spennu í mótið og það sást vel á spilamennsku okkar í kvöld að við vorum staðráðnir í að tryggja okkur titilinn," segir Pálmi Rafn Pálmason sem skoraði sigurmark KR í 1-0 sigri liðsins gegn Val í 20. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Sigurinn tryggði KR-ingum Íslandsmeistaratitilinn í 27. skipti í sögu félagsins en þetta var fyrsti titill Pálma Rafns sem leikmaður KR en hann gekk í ráðir Vesturbæjarliðsins frá Lilleström árið 2015.

„Það hefur mikið verið rætt um það að ég skuldi félaginu og er þægilegt að vera búinn að borga til baka. Þegar ég kom heim og ákvað að fara í KR sagði ég að ég væri kominn til þess að vinna titla. Nú er markmiðinu loksins náð og vonandi er þetta byrjunin á enn frekar titlasöfnun," segir Húsvíkingurinn kampakátur.

„Þetta lið sem við höfum á að skipa í sumar er algjörlega geggjað. Þá á ég við allan leikmannahópinn. Það skiptir engu máli hverjir spila, liðið virkar alltaf eins og vel smurð vél.

Það er mikill samheldni í liðinu og maður finnur það sterklega hversu vel leikmenn standa þétt við bakið á hvor öðrum þó að hlutverkin inni á vellinum séu mis stór," segir hann um lykilinn að þessari velgengni.

„Stuðningurinn úr stúkunni hefur líka verið frábær. Við höfum lagt mikla vinnu á okkur fyrir stuðningsmennina og þeir hafa svarað okkur með því að mæta vel í allt sumar og styðja okkur dyggilega. Það er frábært að vera KR-ingur og upplifa það að vinna titil með félaginu," segir miðvallarleikmaðurinn hrærður.