Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra og for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, kom í Í­þrótta­vikuna með Benna Bó sem sýnd er á Hring­braut á föstu­dags­kvöldum. Gestur með honum var sjálfur Hjör­var Haf­liða­son, doktor Foot­ball.

Bjarni þótti efni­legur mið­vörður og spilaði 22 yngri lands­leiki og skoraði tvö mörk. Bene­dikt Bóas, þáttar­stjórnandi, var búinn að undir­búa mikla ræðu um einn leik þar sem Bjarni spilaði 21. árs lands­leik gegn Spán­verjum sem tapaðist 2-0 en Luis Enriqu­e, nú­verandi lands­liðs­þjálfari Spánar spilaði allan leikinn.

Manjarin, sem lék lengi með Deporti­vo, skoraði mörk Spán­verja.

„Veistu, þetta er skemmti­legt að heyra. Ég hafði bara ekki hug­mynd um þetta,“ sagði Bjarni og hló. „Ég man ekki eftir ein­stökum leik­mönnum.

En 21. árs liðið hafði tapað stórt fyrir Ung­verjum og ég var ekki í þeim hópi. Ég kom inn í þennan leik og reif lið­þófa nánast út úr liðnum og gat ekki rétt úr liðnum í nokkrar vikur.

Ég spilaði fyrri hálf­leikinn og ég man tvennt. Annars­vegar að Albert Guð­munds­son kom inn í klefa fyrir leik sem var þá sendi­herra á Spáni. Hann peppaði okkur fyrir leik. Síðustu orð hans voru: Fari þið út og sigrið.

Hitt var að Spán­verjarnir voru rosa­lega fljótir og spiluðu einnar snertinga bolta. Ég man eftir fyrra markinu þeirra var bang bang bang og einn miðju­maður fékk boltann og hann neglir boltann með ristinni í markið. Það var mjög erfitt að eiga við þá en við náðum samt að halda aftur af þeim og vorum að reyna eins og oft var í lands­leikjum. Ekki bara að hlaupa á eftir leik­mönnum en þetta var gott lið sem við vorum að eiga við.“