Daniel Ricciar­do mun yfir­gefa her­búðir For­múlu 1 liðs McLaren eftir yfir­standandi tíma­bil en liðið hafði frum­kvæði að því að binda enda á samning Ástralans sem hefur ekki staðið undir væntingum.
McLaren sér eftir samningnum sem var gerður við Ricciar­do á sínum tíma er hann gekk til liðs við liðið frá Renault, liðinu sem nú ber nafnið Alpine.

„Ég tel að mesti lær­dómur okkar af þessu er samnings­lega séð," sagði Zak Brown, fram­kvæmda­stjóri For­múlu 1 liðs McLaren. „Ég tel okkur ekki hafa geta gert neitt betur fyrir hann sem öku­mann okkar. Ég sit hérna og get ekki fundið neitt sem við hefðum geta gert til að gera hann sam­keppnis­hæfari. Við reyndum það allt."

McLaren þarf að reiða fram stóra fjár­hæð til þess að binda enda á samning Ricciar­do sem átti að taka enda eftir næsta tíma­bil.

„Við þurftum að binda enda á sam­starfið, þurftum að skrifa upp á stóra greiðslu sem er í góðu því það er samningurinn sem við gerðum," sagði Zak Brown.

Talið er að Ricciar­do fái um 14 milljónir punda, því sem jafn­gildir rúmum 2,3 milljörðum ís­lenskra króna, fyrir að yfir­gefa McLaren á þessum tíma­punkti en Ricciar­do var með samning við liðið út næsta tíma­bil.

Brown segir McLaren læra af þessari reynslu. „Næst þegar að við gerum samninga reynum við að hafa hann meira árangurs­tengdan frekar en að gera bara ráð fyrir því að öku­maðurinn verði góður."

Hefur enga sam­úð með Ricciar­do

Lando Norris, liðs­fé­lagi Ricciar­do hjá McLaren segist ekki hafa neina sam­úð með honum nú þegar fram­tíð Ástralans í For­múlu 1 hangir í lausu lofti. Norris hefur borið höfuð og herðar í sam­keppni við liðs­fé­laga sinn sem hefur þó skilað eina sigri liðsins undan­farinn ára­tug í hús.

„Gleður mig ekki að segja þetta en ég segi nei," sagði Lando að­spurður að því hvort hann hefði sam­úð með Ricciar­do. „Fólk mun lík­legast hata mig fyrir að segja þetta."

„Og það er erfitt að segja þetta því ég gæti staðið í hans sporum í fram­tíðinni.