Tilkynnt var í dag að Kolbrún Þöll Þorradóttir og Helgi Laxdal Aðalgeirsson væru fimleikafólk ársins og að kvennalandsliðið í fimleikum væri lið ársins í árlegri kosningu Fimleikasambandsins.

Kolbrún og Helgi voru valin í úrvalslið mótsins á Evrópumótinu í hópfimleikum sem stóð yfir í Portúgal á dögunum. Þar var Kolbrún hluti af kvennalandsliðinu sem vann til gullverðlauna.

Kemur fram á vef Fimleikasambandsins að Kolbrún hafi verið máttarstólpi í kvennalandsliðinu á EM og stökk hennar hefðu verið meðal þeirra erfiðustu á mótinu.

Þar að auki hafi hún orðið Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni.

Helgi átti þátt í því að koma karlalandsliðinu á verðlaunapall eftir langa fjarveru en þar stóð upp úr þegar hann braut blað í fimleikasögunni með framseríuna skrúfa-kraftstökk-tvöfalt strekkt heljarstökk með tveimur hálfri skrúfu á dýnu.

Helgi er líkt og Kolbrún ríkjandi Íslands- og bikarmeistari.

Kvennalandsliðið í hópfimleikum var valið lið ársins eftir að hafa unnið til gullverðlaunanna á Evrópumótinu.

Í undanúrslitunum voru Stelpurnar okkar hársbreidd á eftir Svíum en bættu frammistöðu sína í úrslitunum og hlutu gullverðlaunin að launum.

Liðið samanstendur af virkilega frambærilegum fimleikakonum sem hafa lagt mikið í sölurnar síðustu ár og unnið mjög hart að því að ná þessum titli, sem þær áttu svo sannarlega skilið.

Ásta Kristinsdóttir varð í öðru sæti í kosningunni um fimleikakonu ársins og Margrét Lea Kristinsdóttir í þriðja sæti. Í karlaflokki var Valgarð Reinhardsson í öðru sæti og Einar Ingi Eyþórsson í því þriðja.

Einnig voru nefndir:

Viktor Elí Sturluson

Júlían Máni Katrínarson

Jónas Ingi Þórisson

Dagur Kári Ólafsson

Andrea Sif Pétursdóttir

Nanna Guðmundsdóttir

Guðrún Edda Min Harðardóttir