„Þetta var virkilega sérstakt, að jafna markametið en á sama tíma fá þessar fréttir frá Frakklandi. Þetta er súrsæt tilfinning,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson, aðspurður út í tilfinningarnar eftir leikinn.

Kolbeinn jafnaði markamet Eiðs Smára Guðjohnsen í 2-0 sigri á Andorra en jafntefli Tyrklands og Frakklands fór langt með að gera út um vonir Íslands á að ná einu af tveimur efstu sætunum.

„Við heyrðum það kallað úr stúkunni að Frakkar væru komnir yfir sem var virkilega góð tilfinning á meðan hún lifði en það er greinilega ekki hægt að treysta á þá.“

Kolbeinn tók talsvert færri leiki í að ná markametinu en Eiður Smári og hefur komið af krafti inn í lið Íslands á ný.

„Þetta er flott afrek, mér líður alltaf þegar ég að spila í landsliðstreyjunni eins og sést á tölfræðinni. Vonandi getum við haldið áfram á þessum veg,“ sagði Kolbeinn og hélt áfram:

„Eftir öll þessi löngu meiðsli voru margir búnir að afskrifa mig og héldu að ég væri búinn. Það er gott að afsanna það.“

Gylfi Þór steig á vítapunktinn og brenndi af og viðurkenndi Kolbeinn að hann hefði verið tilbúinn að stíga á punktinn.

„Auðvitað vildi maður taka vítið, kannski fæ ég að taka næsta en það var ekkert mál.“

Ísland þarf að treysta á Andorra í lokaumferðinni þegar Tyrkir mæta í heimsókn.

„Við þurfum að treysta á þá. Líkurnar eru ekki með okkur en við reynum bara að klára okkar, setja pressu á Tyrkina með sigri úti. Við vitum að við getum unnið þá, annars eigum við umspilið.“