Sænska blaðið Expressen greinir frá því í morgun að leikmaður í sænsku deildinni hafði verið handtekinn. Nafninu er haldið leyndu en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um að ræða Kolbein Sigþórsson.

Netverjar á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum voru fljótir að bendla nafn hans við málið.

Kolbeinn er þar sagður hafa setið að sumbli næturlangt og veitt mótþróa við handtöku klukkan þrjú aðfaranótt fimmtudags. Hann hafi verið vistaður í fangageymslur en forsvarsmenn AIK segjast ekki ætla að tjá sig um málið - það verði leyst innanbúðar og að leikmaðurinn þurfi sjálfur að svara fyrir það.

„Að fara út að skemmta sér í miðbænum á þennan máta er ekki samkvæmt okkar gildum,“ segir formaður félagsins sem um er rætt í fréttinni.

Samkvæmt fréttinni veitti Kolbeinn mótþróa við handtökuna en formaður félags Kolbeins, AIK, segist ekkert vita um það og hafi ekki heyrt af því. Hann staðfesti að hann hefði fundað með Kolbeini.

Íþróttastjóri félagsins segir að þetta sé innanhússmál og vill ekki tjá sig frekar við fjölmiðla. Hann vildi ekki tjá sig heldur um hvort Kolbeinn verðu með í lokaumferðinni á laugardag þegar úrslit ráðast í sænska boltanum.