Tyrkneskir fjölmiðlar segja að Kolbeinn Sigþórsson sé á óskalista tyrkneska félagsins Balıkesirspor en Kolbeinn var um tíma hjá Galataasaray án þess að leika fyrir félagið.

Kolbeinn er þessa dagana án félags eftir að hafa komist að samkomulagi við AIK um að rifta samningi fyrir áramót. Kolbeinn átti eitt ár eftir af samningi sínum í Svíþjóð.

Vefsíðan CNNTürk greinir frá áhuga Balıkesirspor sem er búið að vera í félagsskiptabanni en virðist vera að fá heimild til að kaupa leikmenn á ný.

Liðið leikur í næst efstu deild í Tyrklandi eftir að hafa komist upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins árið 2014.

Kolbeinn hefur áður samið við lið í Tyrklandi þegar hann fór á láni til tyrkneska stórveldisins Galatasaray en meiðsli komu í veg fyrir að markahrókurinn kæmist inn á völlinn fyrir Galatasaray.