Kolbeinn Sigþórson skoraði annað mark íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem er 2-0 yfir í leik sínum gegn Andorra í undankeppni EM 2020 sem fram fer á Laugardalsvellinum þessa stundina.

Kolbeinn komst þar að leiðandi upp að hlið Eiðs Smára Guðjohnsen á toppi listans yfir markahæstu leikmenn í sögu landsliðsins en þeir hafa hvor um sig skorað 26 mörk fyrir landsliðið.

Þetta er þriðja mark Kolbeins fyrir Ísland í undankeppninni en hann skoraði í 3-0 sigrinum gegn Moldóvu, tapinu á móti Albaníu ytra og svo í leiknum í kvöld.

Fyrsta mark Kolbeins fyrir íslenska A-landsliðið kom í vináttulandsleik gegn Færeyjum í mars árið 2010 en Alfreð Finnbogason og Jón Guðni Fjóluson léku með honum í þeim líkt og þeir gerðu í kvöld.