Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, handleggsbrotnaði í leik Íslands gegn Armeníu í undankeppni HM 2022 á sunnudaginn var. Af þeim sökum verður hann ekki með í leik íslenska liðsins gegn Liechtenstein annað kvöld.

Sama má segja um Ragnar Sigurðsson, varnarmann Íslands, sem meiddist í upphitun fyrir leikinn í Jerevan.

Þetta sagði Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi í Vaduz í dag. Þá sagði Arnar Þór ekki liggja fyrir hversu mikið þeir leikmenn sem hafa spilað síðustu tvo leiki geti spilað í leiknum á morgun.

Jóhann Berg Guðmundsson og Rúnar Már Sigurjónsson eru tæpir vegna meiðsla. Arnar Þór er bjartsýnn á að allir sem fóru með til Liechteinstein geti spilað. Það muni hins vegar þurfa að koma í ljós þegar nær dregur að leiknum.