Dagbjartur Sigurbrandsson, einn efnilegasti kylfingur Íslands, er í harðri samkeppni um að komast á annað stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina, meðal annars við Chase Koepka.

Áhugakylfingurinn Dagbjartur sem verður sautján ára síðar á árinu kom sér í vænlega stöðu á þriðja hringnum eftir að hafa átt erfitt uppdráttar á fyrsta hring mótsins.

Koepka hefur verið á Evrópumótaröðinni áður og keppti á Áskorendamótaröð Evrópu í ár en er hvað þekktastur fyrir að vera bróðir Brooks Koepka sem hefur verið í sérflokki og unnið fjóra risameistaratitla á síðustu tveimur árum.

Dagbjartur er í 21. sæti fyrir lokahringinn í dag ásamt Chase Koepka, Thriston Lawrance, Seve Benson og Charlie Ford og leikur með Benson og Lawrance í ráshóp í dag, einum ráshóp á undan Koepka.

Hann á því góða möguleika á að verða fjórði Íslendingurinn sem nær á annað stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina á eftir Andra Þór Björnssyni, Bjarka Péturssyni og Rúnari Arnórssyni.