Ronald Koeman mun taka við hollenska landsliðinu af Louis van Gaal eftir lokakeppni HM í Katar síðar á þessu ári , tveimur árum eftir að hann lét af störfum hjá Hollandi til að taka við Barcelona.

Samningur van Gaal sem þjálfari hollenska landsliðsins rennur út eftir HM í Katar og eru Hollendingar strax búnir að finna eftirmann hans.

Í vikunni tilkynnti van Gaal að hann væri með krabbamein í blöðruhálskirtli og hefði farið leynt með það að hann væri að gangast undir meðferð við því.

Koeman er öllum hnútum kunnugur hjá hollenska knattspyrnusambandinu eftir að hafa stýrt Hollandi á tveggja ára tímabili frá 2018 til 2020.

Þá var Koeman hluti af Evrópumeistaraliði Hollands árið 1988 sem leikmaður.