Ronald Koeman, þjálfari Barcelona, byrjaði blaðamannafund dagsins á því að lesa upp yfirlýsingu þar sem hann kallaði eftir því að honum yrði sýndur skilningur og stuðningur áður en hann gekk út af blaðamannafundinum.

Pressan eykst á Koeman þessa dagana og var hann ekki tilbúinn að svara spurningum blaðamanna. Í yfirlýsingunni kom hann meðal annars inn á að félagið stæði með honum í enduruppbyggingu félagsins og héldist uppbyggingin í hendur við fjárhagsleg vandræði klúbbsins.

Það væru ungir leikmenn innan leikmannahópsins sem gætu orðið meðal þeirra bestu í heiminum á næstu árum en að þeir þyrftu tíma líkt og Xavi og Andres Iniesta fengu á sínum tíma.

Börsungar litu afar illa út í 0-3 tapi gegn Bayern í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku og náðu að bjarga stigi á lokamínútu leiksins í jafntefli gegn Granada um helgina.

Liðið olli vonbrigðum á síðasta ári á fyrsta ári Koeman í knattspyrnustjórastólnum og eru aðdáendur Barcelona ósáttir með gengi liðsins í upphafi tímabilsins.