Þetta kemur fram í yfirlýsingu Manchester United um starfslok Norðmannsins. Leit er nú hafin að knattspyrnustjóra sem mun stýra liðinu út leiktíðina.

Eftir tímabilið, mun síðan að öllu eðlilegu, nýr knattspyrnustjóri taka við liðinu.

Tómas Þór Þórðarson, umsjónarmaður enska boltans hjá Síminn sport, undrast á þessum vinnubrögðum forráðamanna Manchester United.

,,Er ég að skilja þetta rétt að United ætlar að ráða bráðabirgðastjóra út tímabilið og ekki ráða framtíðarmann fyrr en í sumar? Síðasti bráðabirgðastjóri vann slatta af fótboltaleikjum, fékk samning, framlengingu og var svo rekinn," skrifar Tómas Þór í færslu á Twitter og á þar við um atburðarrásina sem varð til þess að Solskjær var á sínum tíma ráðinn sem knattspyrnustjóri Manchester United.

Solskjær tók við Manchester United sem bráðabirgðastjóri í desember árið 2018 þegar Portúgalinn José Mourinho, var rekinn sem knattspyrnustjóri félagsins.

Undir stjórn Solskjær byrjaði Manchester United vel. Raunar það vel að Norðmaðurinn var ráðinn til frambúðar sem knattspyrnustjóri í mars árið 2019.

Solskjær hefur legið undir mikilli pressu undanfarna mánuði og starf hans hangið á bláþræði. Nú hefur verið klippt á þráðinn eftir 4-1 tap Manchester United gegn Watford í ensku úrvalsdeildinni í gær og óvíst hvað tekur við, bæði hjá Manhcester United og Ole Gunnar Solskjær.