Cavallo greindi frá tíðindunum á samfélagsmiðlum, sagði sögu sína. ,,Þegar ég ólst upp fannst mér ég þurfa að fela mig vegna þess að ég skammaðist mín fyrir að geta ekki gert það sem ég elskaði og vera hommi. Að fela hinn sanna mig til að geta elt drauminn að verða atvinnumaður í fótbolta,“ er meðal þess sem segir í yfirlýsingu Josh á samfélagsmiðlum.

,,Það er svolítið sem ég þarf að deila með ykkur öllum. Ég er knattspyrnumaður og ég er samkynhneigður,“ sagði Josh í myndbandi sem birtist á samfélagsmiðlum Adelaide United.

Frá því að Josh birti yfirlýsingu sína hefur síðan fengið mikið lof víðs vegar úr knattspyrnuheiminum. Einn af þeim er Gary Lineker, goðsögn í enskri knattspyrnusögu og umsjónarmaður Match of the day:

,,Það er fáránlegt að við lítum á það að koma út úr skápnum sem hugrakkan hlut í knattspyrnuheiminum. En það er það. Ég er fullur aðdáunar í garð Josh fyrir að feta veg sem vonandi margir munu fylgja honum eftir. Ég er handviss um að mikill meirihluti knattspyrnuheimsins muni fylgja honum og eyða hræðslu sem aðrir kunna að hafa,“ skrifaði Lineker á Twitter.

GettyImages

,,Hæ Josh, ég þekki þig því miður ekki persónulega en ég vil þakka þér fyrir skrefið sem þú varst að taka. Knattspyrnuheimurinn hefur verið langt eftir á í þessum efnum og þú hjálpar okkur við að taka framfaraskref,“ skrifaði Gerard Pique, leikmaður Barcelona á Twitter.

,,Ég er stoltur af þér,“ skrifaði Antoine Griezmann, leikmaður Atletico Madrid og franska landsliðsins á Twitter.

,,Þú ert innblástur fyrir milljónir manna. Allir eiga skilið að geta verið þeir sjálfir. Knattspyrnuheimurinn er á betri stað í dag vegna þín,“ stóð í yfirlýsingu frá Arsenal á samfélagsmiðlum.

Þetta er einungis brotabrot af þeim stuðningsyfirlýsingum sem hafa borist í til Josh Cavallo, samkynhneigðum atvinnumanni í knattspyrnu, í dag.

Samkynhneigðir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni sem þora ekki að opinbera kynhneigð sína

Staðreyndin er sú að Josh er að taka frumkvæði í dag og vonandi munu fleiri fylgja honum því ekki veitir af. Á dögunum var sagt frá því að samkynhneigður leikmaður í ensku úrvalsdeildinni væri hræddur við að opinbera kynhneigð sína af ótta við viðbrögð annarra.

Leikmaðurinn hefur leitað sér sálfræðiaðstoðar. ,,Það er árið 2021 og ég ætti að geta sagt öllum frá því hver ég er,“ segir leikmaðurinn en The Sun birti grein um málið fyrr í mánuðinum.

GettyImages

,,Það eru stuðningsmenn á pöllunum sem eru enn fastir á árunum í kringum 1980 hvað þetta varðar. Ég vil opna mig um þetta vegna þess að ég er eins og ég er og ég er stoltur af því. En í sannleika sagt verð ég krossfestur,“ segir leikmaðurinn.

Í fyrra var greint frá því að tveir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni hefðu sagt nánustu vinum og fjölskyldu frá því að þeir væru samkynhneigðir en að þeir væru hræddir við að opinbera það fyrir umheiminum.

Amal Fashanu, kvikmyndagerðarkona og aktívisti, þekkir þessi mál vel. Frændi hennar, Justin Fashanu, fyrrverandi leikmaður enska liðsins Norwich City, greindi frá því árið að 1990 að hann væri samkynhneigður. Hann tók sitt eigið líf árið 1998 eftir stöðugt aðkast sökum kynhneigðar sinnar.

Justin Fashanu
GettyImages

,,Árið 2021 er árið sem við höfum verið svo meðvituð um samfélagið sem við lifum og hrærumst í og þetta ætti að vera hinn fullkomni tími fyrir samkynhneigðan atvinnumann í einni bestu deild í heimi að koma út úr skápnum. Raunveruleikinn er hins vegar sá að homofóbía, sérstaklega á netinu er meiri en nokkru sinni áður. Við verðum að verja þessa leikmenn,“ segir Amal Fashanu, kvikmyndagerðarkona og aktívisti.