Knattspyrnugoðsögnin Olga Færseth er mætt til Englands til þess að styðja við íslenska landsliðið í knattspyrnu. Olga spilaði á sínum tíma 54 leiki fyrir A-landslið Íslands og skoraði í þeim leikjum 14 mörk. Hún er bjartsýn á gott gengi Íslands fyrir leik liðsins gegn Ítalíu síðar í dag.

,,Við komum bara í gær og erum svona aðeins að finna okkur hérna. Það er mikil spenna fyrir leiknum,“ segir Olga í samtali við Fréttablaðið í Manchester.

,,Við ákváðum það í haust að fara á EM og náðum að kaupa miða. Fyrsti leikur liðsins fór því miður beint ofan í Símamótið og við vorum með þrjár stelpur að spila þar og við vildum ekki fórna því en horfðum þess í stað á hann heima. Við ætlum að kýla á rest og keyptum flug og gistingu eftir fyrsta leikinn.“

Hún upplifir stemmninguna í kringum liðið sem og í tengslum við stuðningsmenn Íslands sem mjög góða.

,,Öll umfjöllun hefur verið á jákvæðu nótunum í kringum liðið enda er held engin þörf á að ræða neitt annað en jákvætt í tengslum við þetta lið. Þær eru ótrúlega þéttar og flottar. Ég er mjög bjartsýn fyrir þennan leik í dag.

En hverju spáir Olga fyrir leik dagsins?

,,Eigum við ekki bara að segja 2-1 sigur. Er það ekki þetta klassíska?“ segir Olga Færseth í samtali við Fréttablaðið en viðtalið við hana í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.