Það var ekki öfundsvert hlutverk fyrir stórstjörnuna Giannis Antetokounmpo að fylgjast með liðsfélögum sínum af hliðarlínunni þegar Milwaukee Bucks var sent í sumarfrí af Miami Heat í NBA-deildinni á dögunum. Giannis gat ekkert gert þegar Bucks voru sendir heim úr „búbbluni“ sem NBA-deildin er að notfæra sér í Orlando til að ljúka tímabilinu, eftir að hafa leikið undir væntingum á ögurstundu annað árið í röð.

Fyrir vikið beinast augun að Giannis og framtíðarhorfum hans. Grikkinn á eitt ár eftir af samningi sínum við Milwaukee og getur því yfirgefið Bucks næsta sumar, en er á sama tíma í einstakri samningsstöðu, þar sem honum stendur til boða að skrifa undir stærsta samning í sögu deildarinnar.

Eftir að hafa verið valinn í úrvalslið NBA tvö ár í röð stendur honum til boða 247 milljóna dollara samningur til fimm ára, 44 milljónum hærri en næststærsti samningur í sögu deildarinnar. Kjósi Giannis að leita á ný mið stendur honum til boða lægri samningur, um 160 milljónir til fjögurra ára.

Annað árið í röð átti Giannis að fara fyrir liði Bucks í úrslitakeppninni, í von um að binda endi á 49 ára bið eftir öðrum meistaratitli í sögu félagsins. Hægt og bítandi hefur liðið tekið skref fram á við á hverju ári í deildinni, með lið byggt í kringum Giannis. Gríski leikmaðurinn er fjölhæfur á báðum endum vallarins og nýtir líkamann vel, sem hefur leitt til þess að hann er iðulega kallaður gríska viðundrið (e. greek freak). Liðið hefur verið með besta sigurhlutfallið í deildinni undanfarin tvö ár, en líkt og í fyrra tókst liðinu ekki að komast á áfangastað sem voru úrslit NBA-deildarinnar. Liðið var smíðað til að ná því besta fram úr Giannis, sem hefur skilað góðum árangri í deildarkeppninni, en til þessa telst árangurinn í úrslitakeppninni ekki nægilega góður án meistaratitils.

Fyrir vikið var umræðan fljót að snúast og velti Richard Jefferson, leikmaður til átján ára í deildinni, því fyrir sér í vikunni hvort að hann væri Scottie Pippen sem þyrfti á Michael Jordan að halda. Með öðrum orðum að hann þurfi að hafa aðra stærri stjörnu sér við hlið til að geta unnið meistaratitil og að Giannis þyrfti að vera aukanúmerið. Jefferson, sem varð meistari með liði Cleveland Cavaliers árið 2016, gaf Giannis engan afslátt með þessum orðum þó að Pippen hafi sjálfur stigið fram og komið Giannis til varnar.

Giannis hefur sjálfur sagt að hann sé ekki á förum frá Milwaukee og að hann ætli sér að byggja meistaralið í Milwaukee, en landslag NBA-deildarinnar hefur breyst undanfarna áratugi. Leikmenn eru sífellt tilbúnir að halda á ný mið í von um að næla í fyrsta meistarahringinn og tryggðin við félögin minnkar. Blaðamenn vestanhafs greindu frá því í vetur að Golden State Warriors ætluðu sér að næla í Giannis til að mynda nýtt ofurteymi, eftir að Kevin Durant yfirgaf félagið síðasta sumar. Félagið lék til úrslita fimm ár í röð og vann fimm meistaratitla og getur sýnt Giannis fordæmi um að leiðin að meistarahringnum sé greiðfær í San Fransisco.