Þann 20. desember árið 2019, var Mikel Arteta, fyrrum leikmaður Arsenal, kynntur sem nýr knattspyrnustjóri liðsins, hann tók við liðinu af Unai Emery, sem náði ekki að heilla í Lundúnum. Arteta skrifaði undir samning út tímabilið 2023.

Á sínu fyrsta hálfa tímabili með liðinu stýrði hann því til sigurs í enska bikarnum. Arsenal endaði hins vegar í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en náði þó Evrópusæti í gegnum bikarkeppnina.

Arsenal varð enskur bikarmeistari á fyrsta tímabili Arteta sem knattspyrnustjóri liðsins
GettyImages

Arsenal vann samfélagsskjöldinn tímabilið 2020/21, komst í undanúrslit Evrópudeildarinnar og endaði í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Árangurinn var undir væntingum.

Tíminn leið á samningi Arteta, hann hafði ekki sannað sig nægilega mikið og tilfinningin eftir síðasta tímabil var sú að árangur liðsins undir stjórn hans væri ekki nægilega góður til þess að hann verðskuldaði nýjan samning.

Á yfirstandandi tímabili byrjaði liðið illa en gengi þess að undanförnu hefur blásið stuðningsmönnum byr í brjósti og handbragð Arteta á liðinu er farið að sjást betur.

Hefur tekið erfiðar ákvarðanir

Arteta hefur einnig þurft að sanna sig í mannlegum samskiptum og erfiðri ákvarðanatöku. Hann tók fyrirliðabandið af Pierre-Emerick Aubameyang í nóvember í fyrra eftir að framherjinn varð uppvís af enn einu agabrotinu sem leikmaður Arsenal. Aubameyang hefur ekki komið nálægt liði Arsenal síðan þá og virðist vera á útleið.

Það virðist ekki hafa haft neikvæð áhrif á ungt lið Arsenal sem hefur stigið upp í fjarverju síns gamla fyrirliða og gefið góð fyrirheit um framhaldið. Spurningin hins vegar sú hvort það muni haldast? Í desember síðastliðnum greindi Arteta frá því að hann hafi ekki átt í neinum viðræðum við Arsenal um nýjan samning. Það ku vera tregða meðal forráðamanna liðsins um að bjóða honum nýjan samning á þessum tímapunkti, líklegt þykir að opnað verði á viðræður undir lok yfirstandandi tímabils þegar að myndin verður skýrari.

Það reyndi á stjórnunarhæfileika Arteta í kjölfar agabrots Arsenal
GettyImages

Á þessum tímapunkti væri hægt að segja sem svo að ef hægt væri að kaupa hlutabréf í Arteta, þá væru þau hlutabréf á uppleið núna. Arsenal situr í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir.

En vandkvæði yfirstjórnar Arsenal um að hvort eða hvenær eigi að bjóða Mikel Arteta samning, eru ekki einungis bundin við árangur Arsenal innan vallar.

Menn hafa ekki gleymt honum hjá Manchester City

City Football Group, er fjárfestingafélag sem fjárfestir í knattspyrnufélögum og á nú þegar hluti í félögum út um allan heim. Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City er flaggskip félagsins en þar má líka finna lið á borð við New York City FC, sem Íslendingurinn Guðmundur Þórarinsson, spilaði fyrir og varð meistari með, sem og ástralska liðið Melbourne City.

Yfirlit yfir eignarhald City Football group, flaggskip félagsins er enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City
Mynd: Skjáskot

Uppi hefur verið hávær orðrómur undanfarið að forráðamenn Manchester City, renni hýru auga í áttina að Mikel Arteta, sem mögulegum arftaka núverandi knattspyrnustjóra liðsins, Pep Guardiola.

Arteta var aðstoðarmaður Guardiola hjá Manchester City áður en hann tók við Arsenal og Spánverjinn er mikils metinn innan raða félagsins. Samkvæmt heimildum The Athletic, kunna yfirmenn City Football Group, að meta þjálfara sem þeir þekkja bæði starfsemi félagsins sem og hvernig fótbolta það vill að liðin sín spili. Þess vegna eru Mikel Arteta og Patrick Vieira, sem á sínum tíma stýrði New York City FC, báðir nefndir sem mögulegir framtíðar knattspyrnustjórar Manchester City.

,,Fyrrum reynsla þeirra af City Football Group, sem og vinna þeirra hjá öðrum knattspyrnufélögum, gera þá álitlega kandídata," segir í frétt The Athletic.

Samningur Pep Guardiola, núverandi knattspyrnustjóra Manchester City rennur út eftir tímabilið 2023. Hann hefur ýjað að því að þetta gæti orðið hans síðasta tímabil með liðinu. Í viðtali í ágúst á síðasta ári sagði hann að næsta skref sitt á knattspyrnustjóraferlinum yrði með landsliði ef sá möguleiki býðst.

,,Eftir sjö ár hjá þessu liði held ég að ég þurfi að stoppa. Ég verð að taka mér hlé og sjá hverju ég hef áorkað," sagði Guardiola í viðtali í ágúst í fyrra.

Arteta starfaði náið með Pep Guardiola hjá Manchester City
GettyImages