Í skýrslu starfshóps ÍSÍ kemur fram að Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, hafi fengið fjölmargar hótanir inn á borð sitt eftir að hún ákvað ekki að stíga frá borði eftir að kynferðisbrotamál landsliðsmanna komu fram í sviðsljósið í sumar.

Klara var meðal annars vöruð við því að sækja barn sitt á leikskólann.

Í skýrslunni kemur fram að stuttu eftir að málið kom í ljós hafi fjölmargir haft í hótunum við starfsfólk KSÍ og sumir gert sér leið í höfuðstöðvar sambandsins með ólæti.

Klara hafi orðið fyrir miklu áreiti og borist fjölmargar hótanir í kjölfarið afsagnar stjórnarinnar og fjölmiðlaumfjöllunarinnar sem fylgdi því.

Eftir samtal við Guðna Th Jóhannesson, forseta Íslands, hafi Klara yfirgefið höfuðstöðvarnar og sagt að hún væri ekki viss hvort að hún kæmi aftur.

Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari U-17 ára liðs drengja, hljóp á eftir Klöru og sá til þess að hún yrði sótt í vinnuna.