Klopp segir það ekki góðar fréttir fyrir önnur lið í ensku úrvalsdeildinni að Manchester United sé að ganga frá ráðningu á þessum reynslumikla stjóra. Ragnick mun gera sex mánaða samning við Manchester United og kemur inn sem bráðabirgðastjóri út tímabilið.

,,Ég þekki hann, en við tölum yfirleitt ekki um hluti hér sem eru ekki staðfestir," sagði Klopp er hann var spurður út í Ragnick á blaðamannafundinum í dag. ,,Enn einn góði knattspynustjórinn er á leið til Englands. Hann er mjög reynslumikill knattspyrnustjóri og hefur byggt upp tvö knattspyrnufélög frá grunni og gert þau að alvöru ógn í Þýskalandi."

Hann segir að því miður sé Ragnick að ganga til liðs við erkifjendur Liverpool. ,,Manchester United mun verða mjög vel skipulagt lið innan vallar, það eru augljóslega ekki góðar fréttir fyrir önnur lið," sagði Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool um ráðningu Manchester United á knattspyrnustjóranum Ralf Ragnick.

Rangnick hefur áður verið knattspyrnustjóri liða á borð við Hannover, Schalke, Hoffenheim og Red Bull Leipzig.

Þá stýrði hann einnig lítt þekktu liði Ulm upp í þýsku úrvalsdeildina í fyrsta skipti í sögu félagsins. Þá hefur hann einnig gegnt stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá Red Bull Salzburg og Red Bull Leipzig á sínum ferli við góðan orðstír.

Rangnick verður þó ekki á hliðarlínunni er Manchester United mætir Chelsea um helgina. Líklegt er að hans fyrsti leikur verið heimaleikur á Old Trafford gegn Arsenal þann 2. desember næstkomandi.

Manchester United er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir með 17 stig eftir 12 leiki. Þá tryggði liðið sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu með sigri á Villarreal á þriðjudaginn.